Hugur - 01.01.2019, Page 21
„Mér fellur núorðið betur við hlutverk Sansjós Pansa …“ 21
hvað ég ætla að semja eftir þessa bók. Ég verð þá búinn að skrifa um öll efni sem
voru á langtímadagskránni. En ég er eins og Woody Allen: öldungis friðlaus ef
verkefni stendur ekki fyrir dyrum fyrir næsta ár. Ef til vill myndu einhverjir segja
í framhjáhlaupi að ég ætti fleira sameiginlegt með Woody, nefnilega að vera meiri
maður magns en gæða. Það er ef til vill ekki ósanngjarn dómur. En ef það besta
sem ég hef skrifað er eins gott, á sinn afstæða hátt, og bestu myndir Woodys, þá
skiptir hálfkaraða smælkið og úrkastið vonandi ekki eins miklu máli. Þetta liggur
kannski í genunum. Ég man að pabbi var oft gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu
vandlátur á eigið útgefið efni.
Þakka þér kærlega fyrir spjallið, Kristján. Ég býst við að viðeigandi sé að ljúka því á
stórri spurningu að lokum: Hvað er gott líf ?
Svarið sem ég ætla að gefa í næstu bók er að það sé, í grundvallaratriðum, farsælt
líf í skilningi Aristótelesar, en samt með talsverðum viðbótum og breytingum
frá skilgreiningu hans. Aristóteles var á harðahlaupum frá loftborinni hugsjóna-
hyggju Platons og gekk, að mínum dómi, of langt í átt til jarðbindingar. Undrun er
að sönnu höfuðdygð hjá Aristótelesi en það er undrun sem er skyldust fræðilegri
forvitni. Það er hins vegar ekkert rými hjá honum fyrir lotningu eða uppljómun.
Þetta er meðal annars ástæða þess að aristótelísk mannkostamenntun á í erfið-
leikum með að skýra róttæk sjálfshvörf, eins og lýst er svo vel í mörgum verkum
Dostojevskís. Það er enginn „kraftbirtingarhljómur guðdómsins“ í Aristótelesi,
hvorki í trúarlegum eða veraldlegum skilningi. Hann hefði ef til vill þurft að
kynnast Ólafi Kárasyni – eða ganga aðeins skemur í hinu fræðilega föðurmorði
sínu á Platoni.
Hugur 2019-Overrides.indd 21 21-Oct-19 10:47:02