Hugur - 01.01.2019, Page 38
38 Jonathan Barnes
„Með því að segja E tjáir x þá hugsun að P“ nefnir hann yrðinguna E en notar
yrðinguna „P“ og „P“ er heimspekileg yrðing. Í kórgerð fer maður frá oratio recta
til oratio obliqua,19 frá því að nefna til þess að nota. Túlkun snýst ekki um að setja
eitthvað inn í tilvitnanamerki, heldur snýst hún þvert á móti um að fjarlægja
tilvitnanamerkin.
„Auðvitað,“ gæti maður sagt, „eru engar gæsalappir í kringum „P“ í kórgerðinni
en þegar túlkandi lætur út úr sér kórgerð, þá er það sem hann heldur fram (ef
hann heldur einhverju fram á annað borð) ekki að P, heldur að x tjái þá hugsun
að P. Sé heimspekin ekki bókstaflega höfð innan gæsalappa þá er hún höfð innan
ímyndaðra gæsalappa með notkun orðanna „x tjáir þá hugsun að“ og þau orð
virðast vernda túlkandann frá heimspekiveirunni alveg jafn vel og gæsalappir.“
Gera þær það? Þegar ég játa að x tjái þá hugsun að P, þá verð ég í allra minnsta
lagi að koma orðum að þeirri hugsun að P og til þess að gera það verð ég að
hafa vald á ákveðnum heimspekilegum orðaforða – og til þess að geta framleitt
kórgerð verð ég að hafa náð valdi á tveimur heimspekilegum orðaforðum. Af því
að til þess að geta skilið yrðinguna E, þá verð ég að hafa náð valdi á því máli sem
hún tilheyrir; og til þess að geta giskað á að x tjái þá hugsun að P, þá verð ég að
hafa náð valdi á því máli sem P tilheyrir. Í tilviki heimspekisagnfræðings sem fæst
við fornaldarheimspeki koma tvö ólík tungumál við sögu. (Ekkert við þetta á sér-
staklega við um túlkun heimspekilegra texta: stærðfræðisagnfræðingur verður að
hafa náð valdi á tæknilegum orðaforða og enskumælandi túlkandi Evklíðs verður
að hafa náð valdi á tveimur tæknilegum orðaforðum.) Spurningin er þá þessi:
Getur maður náð valdi á heimspekilegum orðaforða án þess að stunda heimspeki?
Orð í tæknilegum orðaforða er flækt, svo að segja, í þeim kenningum sem það er
notað til að tjá. Oft er sagt að tækniheiti séu kennileg.20 Noti maður tækniheitið
„massi“ (í ákveðnu samhengi), þá er maður að sýna klassískri eðlisfræði hollustu.
Noti maður orðið „geðlægð“ (í ákveðnu samhengi), þá er maður að samþykkja pro
tanto21 ákveðnar hugmyndir sálgreiningar. Ef þú notar orðið „póstmódernismi“,
þá ertu týndur í þokunni. Og eins með heimspekiorðaforðann.
Hér er léttvægt sýnidæmi þess sem ég hef í huga. Í skýringarriti sínu við Stjórn-
speki Aristótelesar segir herra Charles X að samkvæmt Aristótelesi tilheyri fram-
leiðsluöflin í lýðræðisríki stétt verkafólks. Herra X hefur ekki sjálfur haldið því
fram að framleiðsluöflin o.s.frv., heldur eignar hann Aristótelesi þá fullyrðingu.
Eigi að síður hefur hann játað svolítið sjálfur þegar hann eignaði Aristótelesi
hana – eða öllu heldur hefur hann sýnt eða komið upp um svolítið: hann hefur
sýnt eða komið upp um þá staðreynd að hann er marxisti. Hann hefur komið
upp um það að svo miklu leyti sem hann notaðist við marxískan orðaforða – við
orðasambönd eins og „framleiðsluöflin“ og „stétt verkafólks“. Það breytir engu að
á undan þessum orðum koma varnaðarorðin „Aristóteles tjáir þá hugsun að …“
Þau tilheyra orðaforða herra X sjálfs og með því að nota þau axlar hann ábyrgð
á þeim kenningum sem þeim fylgja. Svo að þrátt fyrir tilvitnanamerkin, jafnt
19 [Frá beinni ræðu til óbeinnar ræðu (Þýð.)]
20 [Eða kenningahlaðin, kenningabundin – e. theory-laden (Þýð.)]
21 [Að svo miklu leyti (Þýð.)]
Hugur 2019-Overrides.indd 38 21-Oct-19 10:47:03