Hugur - 01.01.2019, Side 63
Íslömsk heimspeki og vestræn hugmyndasaga 63
gyðistrú. Í staðinn fékk hann að semja skýringar í nýplatonskum anda um hinn
öllu óumdeildari Aristóteles.64
Shayegan vekur athygli á að þetta hafi verið örlagaríkur atburður í sögu heim-
spekinnar. Það var sá Aristóteles sem Ammoníus færði í nýplatonskan búning
sem hið íslamska fræðasamfélag átti eftir að kynnast, fyrir milligöngu nestor-
íönsku65 kirkjunnar. Aðrir mikilvægir túlkendur Aristótelesar í hinu helleníska
Sýrlandi og Persíu voru Alexander af Afródísías (um 260), Simplikíos (um 490–
560), Olympio doros (um 495–570) og Jóhannes Filóponos (um 490–570).66
Filóponos þekktu menn ekki í hinni kristnu Evrópu en hann átti eftir skipta
miklu máli fyrir hugsuði á borð við Ibn Sina (Avicenna) á slóðum íslamskrar heim-
speki í austri og Ibn Bâjjah (Avempace, um 1085–1138) í heimspekihefð Andalúsíu
í vestri. Kenningar þeirra um mayl, eða náttúrulega tilhneigingu, sækja í hugtakið
rhope hjá Filóponosi. Í gegnum Avicenna og Avempace komust evrópskir heim-
spekingar í kynni við útleggingar á rökum Filóponosar gegn hringrásarkenndum
tímaskilningi og við hugmyndir hans um aflfræði. Líta má á þær sem frumútgáfu
af kenningu Jeans Buridan (um 1300–1358/1361) um impetus.67 Richard Sorabji
(f. 1934) hefur fylgt slóð impetus-kenningarinnar í austurveg aftur til ófullkomins
orðalags Proclusar sem haft er eftir Filóponosi og hafi þaðan borist til annarra
heimspekinga, gyðingsins Saadia (882–942) á 10. öld, hinna kristnu Ibns Adi
(893–974) og Ibns Suwar (942–1017/1030), og loks til Ibns Sina og Ibns Rushd en
þekkingu sína á þessari röksemdafærslu höfðu kristnir heimspekingar miðalda úr
ritum þeirra síðastnefndu.68 Alexander von Humboldt (1769–1859) hafði þegar
rakið kenninguna um impetus til Filóponosar í öðru bindi verks síns Kosmos árið
1847. Ýmsir fræðimenn snemma á 20. öld veittu því einnig athygli hversu margt
líkt var með Filóponosi og gagnrýni hins unga Galíleós (1564–1642) á aflfræði
Aristótelesar.69
Nýplatonsk heimspeki síðfornaldar einkennist af meiri nýsköpun en staða
hennar í vestrænum kanón bendir til. Eins og ljóst er af þeirri íslömsku heimspeki
sem rituð var á arabísku á þessum tímum í austurhluta íslams fólst hún í meiru
en að rita skýringarrit við verk Aristótelesar. Innan hennar voru sett fram ný rök
sem enn á 16. öld – þegar byrjað var að þýða megnið af varðveittum nýplatonskum
64 Yegane Shayegan, „The transmission of Greek philosophy to the Islamic world“, í History of
Islamic Philosophy, ritstj. Seyyed Hossein Nasr og Oliver Leaman (London/New York: Routledge,
2001).
65 [Kirkjan í Persíu klauf sig frá býsönsku kirkjunni á 5. öld og aðgreindi sig enn frekar frá henni
með því að taka upp guðfræðikenningar Nestoríusar, sem kváðu m.a. á um að mannlegt eðli Krists
væri aðgreint frá guðlegu eðli hans. Þær kenningar voru fordæmdar sem villutrú á kirkjuþinginu
í Efesus 431. Nestoríanska kirkjan breiddist út um Austurlönd næstu aldirnar á eftir. – Þýð.]
66 Yegane Shayegan, „The transmission of Greek philosophy to the Islamic world“, í History of
Islamic Philosophy, ritstj. Seyyed Hossein Nasr og Oliver Leaman (London/New York: Routledge,
2001).
67 Fritz Zimmerman, „Philoponus’ impetus theory in the Arabic tradition“, í Philoponus and the
rejection of Aristotelian Science, ritstj. Richard Sorabji (London: Duckworth, 1987), 121 o.áfr.
68 Richard Sorabji, „Infinite power impressed: the transformation of Aristotle’s physics and
theology“ í Aristotle transformed: the ancient commentators and their influence, ritstj. Richard Sorabji
(Ithaca, N.Y.: Cornell University Press, 1990).
69 Michael Wolff, „Philoponus and the rise of preclassical dynamics“, í Philoponus and the rejection of
Aristotelian Science, 86 o.áfr.
Hugur 2019-Overrides.indd 63 21-Oct-19 10:47:05