Hugur - 01.01.2019, Qupperneq 70
Hugur | 30. ár, 2019 | s. 70–93
Eyjólfur K. Emilsson
Kennisetning Plótinosar um efnið
sem frumbölið í Níund I.8 (51)1
Í þessari grein mun ég taka fyrir þá fullyrðingu Plótinosar í ritgerðinni Níund I.8,
„Hvað eru mein og hvaðan koma þau?“, að efnið sé algjör slæmleiki2 og orsök
slæmleika í öðrum hlutum. Sú ritgerð er númer 51 af lista Porfyríosar, sem raðað
er eftir tímaröð, af fimmtíu og fjórum ritgerðum Plótinosar og því ein af hans síð-
ustu. Samsömun slæmleika við efnið er þó þegar haldið fram í 12. ritgerðinni, „Um
efnið“ (II.4.16, 25), og þar af leiðandi getum við gengið út frá því með nokkurri
vissu að Plótinos hafi statt og stöðugt aðhyllst þetta sjónarmið, þótt hann hafi
ekki fært fram veigamikil rök fyrir því fyrr en í áðurnefndri síðari ritgerð.
Vandi hins slæma
Spyrja má hvernig hægt sé að samsama slæmleika við efnið. Við þekkjum fyrir-
bæri sem eru siðferðilega slæm, eins og grimmd og græðgi, slæm náttúrufyrir-
brigði á borð við jarðskjálfta og farsóttir, og það sem er félagslega séð af hinu
slæma eins og fátækt og eiturlyf, en hvernig getur efnið, sem er ekkert sérstakt í
sjálfu sér, verið slæmt? Varla heyrir það undir neitt af þessum kunnuglegu mein-
um. Við komumst aldrei í beina snertingu við það í reynslu okkar: það hvorki
1 Ég vil þakka samstarfsmanni mínum, prófessor Thomas K. Johansen, sem og prófessorunum
Jan Opsomer og Damian Caluori, sem allir lásu yfir og veittu mér dýrmætar athugasemdir við
uppköst að þessari ritgerð. Það að þeir hafi lesið kaflann og sagt álit sitt á honum jafngildir því
þó auðvitað ekki að þeir séu sammála honum í núverandi mynd. Einnig vil ég þakka Lars Fredrik
Janby og Panagiotis Pavlos, sem veittu mér aðstoð á lokastigunum. Ennfremur vil ég þakka áheyr-
endum við Háskóla Íslands og á samkomu Fornheimspekifélagsins við Óslóarháskóla, þar sem ég
kynnti eldri drög að kaflanum. Við bæði þessi tækifæri varð ég margs vísari af umræðunum.
Kári Páll Óskarsson þýddi greinina úr ensku í samvinnu við höfund.
2 Athugasemd varðandi orðanotkun: Ég er hættur þeirri venju þýðenda og fræðimanna að þýða
gríska orðið (to) kakon og önnur orð af sama stofni sem „illsku“ (e. evil) og kýs þess í stað hin
einföldu orð „slæmt“ (e. bad), „hið slæma“ og „slæmleiki“ eða „slæmska“ (e. badness), en tala þó
stundum líka um „böl“ eða „mein“ (e. evils) í fleirtölu, sem hefur ekki sama merkingarblæ og „evil“
í eintölu. Í þessu styðst ég við Christian Schäfer (2004), sem virðist þó ekki hafa hugsað til enda
afleiðingar eigin glöggskyggni og heldur hvort sem er áfram að kalla to kakon illsku.
Hugur 2019-Overrides.indd 70 21-Oct-19 10:47:05