Hugur - 01.01.2019, Síða 110
Hugur | 30. ár, 2019 | s. 110–119
Hannah Arendt
Við flóttafólk1
Til að byrja með viljum við ekki vera kölluð „flóttafólk“. Sjálf köllum við
hvort annað „aðkomufólk“ eða „innflytjendur“. Dagblöðin okkar eru blöð fyrir
„þýskumælandi Bandaríkjamenn“, og að minni vitund er ekki og hefur aldrei ver-
ið til félag fólks sem kennt er við flótta eftir að hafa verið ofsótt af Hitler.
Áður fyrr var flóttafólk einstaklingar sem leita þurftu hælis vegna þess sem
þeir gerðu eða pólitískrar skoðunar sem þeir höfðu. Það er svo sem rétt að við
höfum þurft að leita hælis, en við höfum ekkert gert og flestum okkar hefur aldrei
komið til hugar að hafa róttæka skoðun á einu eða neinu. Með tilkomu okkar
hefur merking orðsins „flóttafólk“ breyst. „Flóttafólk“ er nú þau okkar sem eru
svo ólánsöm að koma til nýs lands og þurfa að þiggja hjálp frá flóttamannastofn-
unum.
Áður en þetta stríð braust út vorum við enn viðkvæmari fyrir því að vera nefnd
flóttafólk. Við gerðum allt sem í valdi okkar stóð til þess að sanna fyrir öðrum að
við værum einungis hefðbundnir innflytjendur. Við lýstum því yfir að við hefð-
um flutt af fúsum og frjálsum vilja til landa að okkar vali og þvertókum fyrir
að aðstæður okkar hefðu nokkuð með „svokallaðan gyðingavanda“ að gera. Já,
við vorum „innflytjendur“ eða „aðkomufólk“ sem hafði flutt frá heimalandi sínu
vegna þess að einn góðan veðurdag hentaði það okkur ekki lengur að vera um
kyrrt, eða alfarið af efnahagslegum ástæðum. Við vildum byggja líf okkar upp á
nýjum grunni, það var allt og sumt. Að byggja líf sitt upp að nýju krefst styrks og
bjartsýni. Þannig að við erum afar bjartsýn.
Bjartsýni okkar er einmitt aðdáunarverð, þó við segjum sjálf frá. Saga baráttu
okkar er loksins kunn. Við misstum heimili okkar, og þar með hvarf kunnugleiki
daglegs lífs. Við misstum störf okkar, og þar með trúna á að við séum til einhvers
gagns í þessum heimi. Við misstum tungumál okkar, og þar með náttúruleg við-
brögð, einfaldleikann sem felst í líkamstjáningu, tilgerðarlausa tjáningu tilfinn-
inga. Við skildum ættingja okkar eftir í pólskum gettóum og bestu vinir okkar
voru drepnir í útrýmingarbúðum, og þar með varð rof í einkalífi okkar.
1 Grein þessi birtist fyrst í tímaritinu The Menorah Journal árið 1943. Tímaritið var stofnað árið 1915
í New York og var því ætlað að efla húmanísk gildi innan gyðingdómsins og styðja við veraldlega
menningu gyðinga á ensku. (Neðanmálsgreinar eru athugasemdir þýðanda.)
Hugur 2019-Overrides.indd 110 21-Oct-19 10:47:08