Hugur - 01.01.2019, Side 174
174 Steinunn Hreinsdóttir
felast í hlutmiðaðri verufræði (e. object oriented ontology), sem segir að frumspekin
tilheyri náttúru mannsins, það að vera í heiminum og bærast í honum sem hlut-
og náttúruvera í samspili við umhverfið. Með þessum hætti leitast Irigaray við að
afbyggja hin langvinnu skil milli líkama og hugar, náttúru og menningar. Einnig
er hún sammála hugmyndum Merleau-Pontys um líkamann sem hluta af holdi
heimsins, þ.e. við stöndum ekki andspænis veruleikanum heldur erum við hluti af
honum; veruleikinn er þegar í okkur.29 Þá er reynslan ekki aðeins hugræns eðlis
og líkamleg, heldur er hún einnig kynjuð. Það að vera í heiminum þýðir einfald-
lega að vera kynjaður líkami í heiminum, jafnan formfræðilega ólíkur „hinum“ og
þessi kynjaði líkami skynjar með fyrstu persónu sjónarhorni. Irigaray endurhugsar
gangverk nálægðar, þ.e. hvernig við bærumst sem hluti af holdi heimsins. Ná-
lægðin er ekki á grundvelli hugtaka eða rökmiðjaðrar orðræðu heldur birtist hún
í samfundi tveggja, tengslunum, flæðinu og hreyfingunni. Í því sambandi hugar
Irigaray að forhugtakalegri og fyrirbærafræðilegri skynjun, snertingu, sjálfshrif-
um, vessum, tilfinningum og innri náttúru verunnar.
Afbygging Irigaray sem eftirhermuaðferð
Afbygging Irigaray er markviss eftirhermuaðferð (e. mimesis) þar sem hún herm-
ir líkamleika og skynjaða tilfinningu upp á rökmiðjaða sannleiksmiðju, þ.e.a.s
orðið. Aðferðin, sem einnig er nefnd strategísk eðlishyggja, er ákveðin aðferð til
þess að rífa niður staðlaðar ímyndir um eðli kynjanna. Endurtúlkun hennar á
hellislíkingu Platons grundvallast á slíkri aðferð; ætlun hennar er ekki að storka
hefðinni, heldur að rannsaka hin undirliggjandi öfl sem einkenna textann í því
skyni að efla vitund út frá staðsettu sjónarhorni líkamlegrar veru eða kvenleikans.
Eftirhermuaðferð Irigaray er fyrst og fremst skapandi aðferð sem dregur fram hið
ósagða og bælda á leikrænan og ljóðrænan hátt í því skyni að skapa menningu
tveggja, menningu kynjamismunar. Hún varðar ekki eftirlíkingu sem eftirmynd
(e. representation) af veruleikanum og ekki varðar hún ítrekunina (e. reiteration)
sem framleiðir og viðheldur kyngervi í takt við samfélagslega mótunarhyggju líkt
og Butler gerir grein fyrir í verki sínu Gender Trouble.30 Frekar er eftirhermunin
meðvituð leið til þess að skapa millirými (e. interim space) í formi skopstælingar
(e. mimicry) á hinu sögulega „úthlutaða“ kvenlega.31 Eftirhermuaðferð Irigaray
snýst fyrst og fremst um að skapa rými fyrir tjáningu (e. expression) grundvallaða
á líkamlegri gagnrýnni hugsun og sköpun sjálfsveruleika þar sem skilin milli rök-
hugsunar og líkama eru horfin.
Einfalt dæmi um eftirhermun grundvallaða á tjáningu er hin árlega druslu-
ganga, en skopstælingin í þeirri kröfugöngu felst í því að herma sitthvað upp á
drusluna í þeim tilgangi að skila skömminni, snúa upp á druslunafngiftina og gefa
henni jákvæða merkingu. Að baki liggur sú tilfinningalega reynsla að drusluheitið
29 Merleau-Ponty 1945.
30 Butler 1990.
31 Irigaray 1985b: 76.
Hugur 2019-Overrides.indd 174 21-Oct-19 10:47:12