Litli Bergþór - 01.06.2022, Side 22
22 Litli-Bergþór
var ekki fyrr en 66 árum síðar sem þau fundust. Það
var árið 1846 að grasakonur að sunnan fundu þau.
Brynjólfur nokkur Brynjólfsson var á sömu slóðum
og frétti af fundinum, leitaði upp beinin og fann þau
á grjótmel „ekki allskammt frá tjaldstað“ ,hvað sem
það merkir nákvæmlega og voru grjót og hraunhellur
nokkrar ofan á beinunum þótt blásið hafði ofan af
þeim og þau farin að standa upp úr sverðinum. Hann
setti þar merki og lét vita af fundinum. Beinin voru
svo sótt og þau flutt í skinnbelgjum heim á Reynistað.
Þá voru foreldrar drengjanna bæði látin en Ragnheiður
systir þeirra bjó þar ásamt Einari, manni sínum, en
hann var einnig af Reynistaðarætt. Sent var eftir Jósep
lækni Skaptasyni sem rannsakaði beinin og taldi þau
vera af manni um tvítugsaldur og unglingi. Þóttust
menn vita að þar væru um bein Staðarbræðra að ræða.
Beinin voru jarðsungin á Reynistað að viðstöddum
fáum útvöldum gestum.
Eins og gefur að skilja hlýtur þessi atburður að
hafa mikil áhrif á foreldra, systkin og nána ættingja
bræðranna. Er sagt að Halldór á Reynistað bæri sig
mun verr en Ragnheiður. En engu að síður var hún
full örvæntingar og sorgar, þótt hún bæri sig betur en
maður hennar, því henni lá við að örvinglast svo iðraði
hana þess að hafa sent synina í þennan leiðangur og
þá sérstaklega að hafa sent Einar litla frá sér þótt
hann hefði beðið hana svona innilega um að vera hlíft
við ferð þessari. En vitanlega gat hana ekki grunað
hvernig fara mundi.
Ég hef skilning á þeirri miklu vanlíðan sem
fjölskyldan glímdi við eftir þennan voveiflega atburð
þótt ég geti varla sett mig í þeirra fótspor. Auk þeirrar
iðrunar sem kemur svo sterkt fram þá hlýtur að
hafa verið mjög erfitt að vita af líkum þeirra bræðra
einhversstaðar uppi á Kili og að ekki hafi tekist að finna
þá. Svo var greinilegt að framburður manna varðandi
líkin og umbúnað á tjaldstað var mjög mismunandi,
spurningar vöknuðu um ástæður þess að lík bræðranna
voru fjarlægð úr tjaldinu og einnig að ýmis gögn og
fjármunir sem hópurinn hafði með í leiðangrinum
hreinlega vantaði þegar allt var skoðað í lokin t.d.
tvær peningabuddur, innsigluð bréf, fimm reikninga
og fjóra lykla. Þá vantaði skúffu í nýjan kistil sem var
meðferðis. Einhverjir aðilar töldu sig hafa orðið varir
við suma þessa hluti hjá manni nokkrum. Grunaði
Reynistaðarhjón að lík sona þeirra hefðu horfið af
mannavöldum. Vildu þau því kanna málið frekar og
stóðu fyrir málaferlum á tveimur dómsstigum, sem
báru vott um mikla ólgu og tortryggni í samfélaginu,
því þar voru nokkrir aðilar grunaðir um að hafa
rænt líkum Reynistaðarbræðra og fært þau, jafnvel í
þeim tilgangi að þau fyndust alls ekki. Ekki tókst að
sanna sekt þessara manna og lauk málaferlunum því
þannig að þeir voru sýknaðir en þó var
almannarómur þeim mjög á móti alla
þeirra ævi.
Eftir lát Bjarna og Einars fór að bera á
trú ættingja á eftirfarandi atriðum:
1. Engum dreng af ættinni mætti gefa
nafnið Bjarni.
2. Ekki ætti fólk af Reynistaðarætt að
ríða bleikum hesti.
3. Ekki má klæðast grænum flíkum.
Þetta er það sem kallað hefur verið lifandi
trú þ.e. fjölmörg atvik hafa orðið til þess
að styrkja þessa ættartrú og sannfæra
fólk um að rétt sé að virða hana en þetta
virðist aðeins gilda um karlmenn. Enn
þann dag í dag forðast sumir afkomendur
Ragnheiðar og Halldórs að nota Bjarna
nafnið, ríða bleikum hesti eða klæðast
grænu en aðrir hafa ekki tekið mark á þessari trú og
það virðist ekki hafa orðið þeim að meini svo ég viti
til.
Amma Einars Baldvins Guðmundssonar hæsta-
réttarlögmanns frá Hraunum í Fljótum hét Jóhanna
Jórunn Stefánsdóttir og var hún frænka þeirra
Reynistaðarbræðra. Heyrðist Einar Baldvin oft halda
í þessa ættartrú og aldrei sást hann til að mynda í
grænni flík, ekki svo mikið sem skyrtuslifsi. Eins var
með fleiri í hans fjölskyldu.
Í mínum ættlegg eru sumir sem leggja sig fram
um að brjóta ekki í bága við trúna eins og t.d. Katrín
Fjeldsted læknir. Í DV. – Helgarblaði frá 27. febrúar
1982 sagði hún: „.. ég held þessari hjátrú alfarið við.
Finnst mér enda full ástæða til að taka mark á og fara
eftir fornum hefðum forfeðra minna ..... minn sonur
fer ekki í grænt og ekki heitir hann Bjarni.”
Minnismerki Reynistaðarbræðra. Mynd birt með góðfúslegu leyfi Páls Friðrikssonar hjá
Feyki, fréttablaði Norðurlands vestra.