Litli Bergþór - 01.06.2022, Qupperneq 47
Litli-Bergþór 47
núverandi brúarstæði. Tveir bátar voru notaðir til að
tína upp fé sem gafst upp á sundinu. Er til mikil og
góð lýsing á því hvernig farið var að við þetta verk í
grein Einars í Göngum og réttum. Greinilega ansi erfitt
verk og oft mikið volk og vosbúð, bæði á smölum og
fénaði. (1), (8), (21).
Eftir að brúin kom 1935 urðu smalamennskur, og
ekki síður rekstur lambfjár á fjall, mun auðveldari.
Þegar ný brú, sem þoldi þyngri farartæki, var byggð
yfir Hvítá á þessum stað 1973 gátu bændur, sem beita
vildu fé sínu innan Hvítár, ekið lambfénu þangað á
vögnum. Aðstæður til fjárflutninga bötnuðu svo enn
eftir að Sandá var brúuð árið 1979. Engu að síður
var fé rekið á fjall, allt inn á Svartártorfur, langt fram
eftir 20. öldinni og lagðist fjallrekstur sennilega ekki
alfarið af fyrr en við fjárskiptin 2004-2006. Eftir það
hefur fénu öllu verið ekið á fjall. (20).
Áður en brúin kom á Tungfljót í landi Vatnsleysu
árið 1929, var fjallsafnið rekið vestur yfir Ásbrandsá
á svonefndu Lambavaði, vestur á Haukadalsheiði, til
þess að ekki þyrfti að sundleggja það í Tungufljóti.
Þaðan var það rekið niður hjá Haukadal, neðan við
Múla og í gömlu réttirnar við Tungufljót neðan við
Holtakot.
Eftir að brúin kom, hefur safnið verið rekið suður
Eystri-Tunguna og yfir Tungufljótsbrúna í réttirnar, í
þær gömlu til ársins 1955 og þær nýju eftir það.
Arnór Karlsson segir frá því í Sunnlenskar byggðir,
að Seyðisársafnið hafi verið rekið á Réttatorfu austan
við Tungufljót á móti gömlu réttunum. Eystritungu féð
var þar dregið úr og hitt féð svo rekið yfir Fljótið ofan
við réttirnar og réttað með fjallsafninu. Gat það verið
milli 700-1400 fjár sem kom norðan frá Seyðisá.
Fjallferðir eftir 1937
Eftir að girt var vegna sauðfjárvarna á Kili hafa
Biskupstungnamenn leitað allan afréttinn, þ.e. frá
girðingunni norðan Hveravalla og milli jökla. Að
vestanverðu liggja mörk afréttarins um Langjökul,
Farið og Ásbrandsá til byggða, en að austan frá
Hofsjökli, austan Blágnípu, um Jökulkvíslina
(Jökulfall) þar til hún rennur í Hvítá. Þaðan liggja
mörkin um Hvítá til byggða.
Fyrsta leit á Biskupstungnaafrétti (fyrsta safn)
hefur a.m.k. frá upphafi 20. aldar verið 7 dagar og
er svo enn. Farið var áður á miðvikudegi og réttað á
miðvikudegi vikuna eftir. Síðan árið 1996 hefur verið
farið á laugardegi og réttað á laugardegi viku síðar.
Fjallmenn (26-28 menn) fara ríðandi í leitir með 2-3
góða hesta til reiðar, - ekki verra ef einhver á góðan
smalahund.
Margt hefur breyst varðandi fjallferðirnar,
sérstaklega hvað varðar aðbúnað, en þær eru enn sem
fyrr tilhlökkunarefni þeirra, sem í þær fara. Hver slær
hendi á móti 7 daga hestaferð? Tólf tímar í hnakknum
á hverjum degi, vel nestaður, allskonar ævintýri
og þrekraunir, heitur matur og góður félagsskapur
þegar komið er í skála? – Fjallferðir hafa því alltaf
verið eftirsóttar og auðvelt að manna þær, enda lítið
um að menn þurfi að hlaupa í fjöll, nema þá helst í
Þjófadalafjöllin austan Langjökuls og Bláfell.
Utanumhald hefur jafnan verið gott í fjallferðum
Tungnamanna. Matseljur hafa graut og nesti til kl. 6
og fjallmenn eiga að vera tilbúnir, komnir í hnakkinn
kl. 7 og skiptir þá ekki máli þótt söngur og gleði hafi
verið fram eftir nóttu. Hver maður fer möglunarlaust í
þá leit sem honum er skipað í af fjallkóngi og þeir sem
ekki eru mættir á tilsettum tíma verða bara eftir! Og
það gera menn ekki nema einu sinni.
Skipulag leita hefur örlítið breyst í samræmi við betri
vegasamgöngur og gistimöguleika. Í stórum dráttum
eru leitir þó svipaðar og áður fyrr, nema að nú er farið í
Hveravallaleit og Austurkróksleit í stað Seyðisárleitar
og Gránunesleitar. Frá 2012 hefur fyrsti náttstaður
fjallmanna verið í Svartárbotnum (Gíslaskála), en
var áður í Árbúðum og þar áður í Hvítárnesi til 1992.
Fyrsti dagur á fjalli, fjallreiðardagurinn, fer í að koma
sér og hestunum í fyrsta náttstað og er ein dagleið á
hestum frá efstu bæjum í náttstaðina í Hvítárnesi og
Árbúðum. Áður fóru allir fjallmenn ríðandi til fjalls,
Fé rekið meðfram Svartá í stefnu á Bláfell.
►