Litli Bergþór - 01.06.2022, Síða 5
Litli-Bergþór 5
Örfá dæmi um hvað hægt er að gera
Kaupa minna, það einfaldar lífið. Við þurfum í raun ótrúlega lítið til að lifa vel.
Borða sem næst náttúrunni, helst það sem við framleiðum sjálf, eða er framleitt í heimabyggð, sem
við vitum hvernig er framleitt. Keyra sem styst eftir vörum. Forðast allar vörur, sem innihalda mikið
af aukaefnum eins og mikið unnar matvörur/snyrtivörur. - Við hér í Tungunum getum t.d. þakkað fyrir
Bjarnabúð, sem stendur sig vel í að bjóða upp á kjöt og grænmeti/ávexti úr nágrenninu.
Forðast notkun eiturefna í ræktun, - klippa njólann, reita arfa í stað þess að eitra! Lífrænar varnir.-
Nota allan lífrænan úrgang sem áburð. Skít, seyru, lífrænan massa plantna og dýra, fiskúrgang á sjó
og landi. Alls ekki henda þessarri auðlind á hauga eða í haf. Til þess að hægt sé að nýta slíkan áburð
heildrænt í stað tilbúins áburðar, þarf að vinna hann og auðvelda notkun hans. Þetta er verkefni fyrir
frumkvöðla náinnar framtíðar - og stjórnvöld!-
Forðast matarsóun, ekki kaupa meira en það sem nýtist og ef verður afgangur, nota leifarnar sjálfur,
eða fyrir hundinn/köttinn. Lífrænn úrgangur fer í jarðgerðarholu/moltugerð. Versla frekar við þær búðir,
sem selja nothæfa vöru á niðursettu verði, þegar farið er að sjá á henni, frekar en henda henni. Hugsa
um hve langt þarf að flytja mat og aðrar neysluvörur og um kolefnisspor flutningsins.
Hugsa um hvaðan maturinn kemur. Forðast stóriðju-framleiddan mat, hann þarfnast því miður oft
aðstoðar eiturefna, hormóna eða sýklalyfja. Feitur fiskur ofarlega í fæðukeðjunni inniheldur í seinni tíð
þungmálma vegna mengunar, og er ekki hollur í miklu magni.Ávextir sem framleiddir er í fjarlægum
heimsálfum komast ekki til okkar óskemmdir nema vera eitraðir og rotvarðir eða vaxaðir. Annars
héldust þeir ekki gljáandi og fallegir í gegnum flutning, lagerhald og bið í stórmarkaði. Þeir eru tíndir
óþroskaðir af trjánum í öðrum heimsálfum, þroskast á leið á markað og þess vegna bragðlausir og
súrir þó fallegir séu. Það þekkja þeir sem smakkað hafa nýtínda suðræna ávexti þar sem þeir vaxa
náttúrulega. - Fyrir utan kolefnissporið af flutningnum.Stóriðju í ræktun ávaxta fylgir líka matarsóun.
Allir ávextirnir þurfa að líta eins út, Þeim ávöxtum sem ekki falla í staðalform er oftast hent á
framleiðslustað, hinum þegar fer að sjá á þeim í búðum/stórverslunum – eða í ísskápnum heima.
Sama með grænmeti. – Ótrúleg matarsóun. Ég set því spurningarmerki við kröfur um úrval og mikla
ávaxtaneyslu á Íslandi/norðlægum slóðum. Nýtum árstíðarbundna framleiðslu þegar hún er fersk og
helst það sem við framleiðum hér heima eða í nágrannaríkjum.
Nýta gömlu fötin, gömlu muflurnar, - ekki kaupa nýtt fyrr en það gamla eru ónýtt. Jafnvel gera við!
Nota föt úr náttúrulegum efnum, t.d. ull, eða bómull sem framleidd er á ábyrgan hátt. – Það er í
lagi að borga hærra verð fyrir vöru sem endist og/eða er framleidd sem næst heimabyggð á ábyrgan
hátt. Öll viljum við jú fá laun fyrir vinnu okkar. Og það kostar. Matur og föt geta ekki verið ódýr ef þau
eru framleidd þar sem sanngjörn laun eru greidd fyrir vinnuna.
Sniðganga einnota plast. Ég er algjörlega hætt að nota plastfilmu og plastpoka utan um eða yfir
mat í ísskápnum. Set matinn í gler/leirskálar (helst) eða fjölnota plastskálar og disk yfir. Geymist betur
þannig! - Viðurkenni þó að ég nota enn frystipoka utan um matvöru í frysti, það þarf að laga það. -
Samt er með ólíkindum hve mikið plast kemur í plasttunnuna utan af matvörum.
Forðast allan „geymslumat“ með mörgum aukaefnum og unninn mat. Fækka bílum á heimilinu,
keyra minna, fækka flugferðum, fara heldur í lengri ferðir og dvelja lengur á sama stað, skipuleggja
og samnýta ferðir. (Það var hægt í gamla daga, viðurkenni að það gengur illa á okkar heimili í dag!).
Nota umhverfisvænni orkugjafa á bílana (allavega í framtíðinni, við næstu bílaskipti!).
Einfalda lífið.
Þetta eru bara örfáar hugmyndir. Ætli það sé ekki verkefni okkar allra að hugsa um þessa hluti
og finna okkar eigin leiðir til að varðveita jörðina okkar, nýta hana án þess að spilla henni.
Gleðilegt sumar.