Litli Bergþór - 01.06.2022, Síða 58
58 Litli-Bergþór
1988. Og hann spilaði á orgel við messur í kirkjum
í sveitinni eins og Erlendur afi minn gerði og Björn
langafi á undan honum, þar til organistinn í Skálholti
leysti hann af. Menn eru ekkert að breyta til milli
kynslóða í þessari fjölskyldu! Það er gaman að geta
þess að faðir minn hefur spilað við flestar, ef ekki allar
skírnir afkomenda sinna, nú síðast við skírn Hjartar
Loga Vilborgar og Birgissonar á Torfastöðum í mars.
Ingibjörg: Varðandi mínar ættir, þá er ég Snæfellingur
í báðar ættir eins og áður er sagt. Móðir mín er Kristín
Þórðardóttir frá Miðhrauni í Miklaholtshreppi f.
1920 og faðir minn, Óskar Ólafsson frá Söðulsholti
í Eyjahreppi, f. 1907. Þau bjuggu í Stykkishólmi frá
1947-1958 og þar fæddust þrjú eldri systkini mín.
Síðan fluttu foreldrar mínir í Hveragerði þar sem ég
fæddist árið 1961, yngst af fjórum systkinum, og er
uppalin þar.
Elsta systir mín, Kristrún var fædd 1947. Hún fórst
árið 1983 þegar skelbát hvolfdi á Breiðafirði. Hin eru
Ólafur (f. 1949) og Steinunn (f. 1952) og þau búa bæði
í Hveragerði.
Pabbi var trésmíðameistari, fékk berkla og liðagigt
og reiknaði því ekki með því að verða fjölskyldumaður.
En 40 ára gamall hitti hann Kristínu móður mína fyrir
vestan og þau giftu sig 1947. Hún hafði útskrifaðist
frá Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Ölfusi í fyrsta
útskriftarárganginum árið 1941, en skólinn var
stofnaður 1939.
Hún starfaði svo sem garðyrkjufræðingur hjá
Stefáni á Syðri-Reykjum um tíma áður en hún flutti
aftur vestur. Á Syðri-Reykjum var margt ræktað,
alltaf verið að prófa eitthvað nýtt, svo það var mikill
lærdómur að vera þar. Eftir að foreldrar mínir fluttu í
Hveragerði tók móðir mín upp þráðinn og hélt áfram
að vinna við garðyrkju þar.
Nám og vinna
Óli: Ég fór í gagnfræðaskóla á Selfossi árið 1972,
síðan í Iðnskólann í trésmíði. Fyrsta launaða vinnan
mín var við byggingu sundlaugarinnar í Reykholti,
ætli það hafi ekki verið 1972, því ég man að ég
var ekki kominn með bílpróf. Sveinn í Tungu var
formaður bygginganefndarinnar og stóð fyrir þessum
framkvæmdum. Áður en ég fór á samning keyrði
ég í eitt ár rútur hjá Ólafi Ketilssyni. Keyrði þá m.a.
stelpurnar á Húsmæðraskólanum á Laugarvatni og þar
var ein námsmeyja sem mér leist svo ljómandi vel á!
Sem betur fer var það gagnkvæmt og við byrjuðum
að búa saman á 2. í jólum árið 1978, fluttum þá í nýja
íbúð í Kópavogi, sem tengdafaðir Birkis Þorkelssonar
á Laugarvatni átti.
Í framhaldinu fór ég á samning hjá Árna
Jóhannssyni byggingameistara, þeim sem byggði
Aratungu á sínum tíma og reyndar íbúðarhúsið á Tjörn
líka. Það eru til ýmsar sögur af Árna, sem var vín-
og söngmaður góður og bruggaði víst í kjallaranum
í Aratungu á byggingatímanum. Grímur á Syðri-
Reykjum, var í pípulögnunum þar og hafði fengið að
smakka á veigunum hjá Árna. Grímur geymdi sement
fyrir Árna á Reykjum og þegar þeir voru þar staddir
sagði Grímur við Árna: „Nú þarf ég að gefa þér sopa“.
Hann tók upp mikla lyklakippu og opnaði hverja
hirsluna eftir annarri, þangað til hann kom að flösku
og bauð Árna að súpa á. Þetta reyndist vera hreinn
spíri og varð Árna svarafátt þegar Grímur spurði hvort
hann vildi ekki annan. „Nú, þá set ég hana bara niður
aftur“, sagði Grímur þegar hann fékk ekkert svar. Og
þegar Árni loks náði andanum var Grímur búinn að
læsa flöskuna niður!
Eftir að ég kláraði samninginn vann ég í 20 ár hjá
Verkamannabústöðunum í Reykjavík, við byggingu
verkamannabústaðanna í Breiðholti, á Granda,
Ártúnsholti og í Grafarvogi. Vann ég allan tímann
við að steypa upp íbúðirnar. Aðrir flokkar voru í því
að setja þakið á, glerja o.s.frv. Þar voru allir á góðum
launum, hver vann sitt verk í uppmælingu og íbúðirnar
voru vandaðar. Eftir að verkamannabústaðakerfið var
lagt niður vann ég fyrst hjá byggingafélaginu Viðari í
6 ár, síðan hjá Byggingafélagi Gunnars og Gylfa í ein
5-6 ár. Í Vatnaskógi var ég eftir hrun í eitt ár og síðan í
10 ár við viðhaldsvinnu hjá KEA-hótelum, fyrirtækið
var með tvö hótel í Reykjavík þegar ég byrjaði, m.a.
Hótel Borg, en sjö þegar ég hætti.
Þá fannst mér þetta verið orðið gott í höfuðborginni.
Við ákváðum að byggja okkur íbúðarhús hér á
Vatnsleysu og flytja austur þegar það yrði tilbúið.
Við vorum hvort sem er allar helgar í bústaðnum og
búin að vera það allan okkar búskap, höfðum í raun
aldrei flutt suður. Síðustu þrjú árin sem við bjuggum
í bænum fóru því öll frí og helgar í byggingu þessa
húss. Við fluttum inn í janúar 2020 og það var mikill
léttir þegar þessu verkefni var lokið. Hér líður okkur
vel. Við erum bæði svo mikið sveitafólk í gerðinni og
líður best utan við skarkalann og stressið sem fylgir
því að búa í bænum.
Erlendur Óli á rútu frá Ólafi Ketilssyni. Með honum á myndinni er
Ómar Ellertsson.