Litli Bergþór - 01.06.2022, Qupperneq 51
Litli-Bergþór 51
Það gat gengið á ýmsu með trússið í fjallferðum.
Guðni Lýðsson minnist þess þegar hann lánaði Lofti
Jónassyni eitt sinn „Múkkann“ sinn, Benz unimog
hertrukk, undir trússið. Eyja og Rúna voru þá með
mötuneytið. Þetta var árið sem rigndi hvað mest og í
Hvítárnesi og fór bíllinn ekki í gang hvernig sem reynt
var. Guðni sótti þá Ursus traktor til Vals á Gýgjarhóli,
hengdi Múkkann og eldhúsvagninn aftan í hann og
dró allt saman suður að Sandá. Þegar þeir komu að
vaðinu á Grjótá, sáu þeir á toppinn á bíl út í ánni, sem
var í miklum vexti. Var ekki annað að gera en taka
Múkkann og vagninn aftanúr og draga bílinn upp.
Reyndist þetta vera splunkunýr Hilux jeppi mannlaus.
Eigandinn ásamt sex ára syni höfðu sem betur fer
komist út og voru teknir uppí á leið til byggða.
Fleiri sögur eru til af allskonar uppákomum í
fjallferðum sem ekki verða sagðar hér. Það gátu t.d.
verið ófærð, bensínstíflur eða brotin drif í trússbílum,
með tilheyrandi björgunarleiðöngrum og umstangi,
enda Kjalvegur á köflum ekki fólksbílafær.
Samantekt yfir trúss og bílstjóra með mötuneytinu
frá 1969:
1969 – 1983 Smári Guðmundsson
1984 – 1986 Páll Óskarsson
1987 – 2004 Loftur Jónasson
2005 – 2011 ráðskonurnar Guðný Rósa og Camilla
óku sjálfar sitt hvorn trússbílinn með kerrum.
2012 Runólfur Einarsson
frá 2013 Egill Guðjónsson.
Kvenfólk á fjalli
Fjallferðir þóttu lengi vel ekki vera kvenmannsverk,
enda slarksamt að gista í tjöldum með allan
viðlegubúnað á trússhestum. Mig grunar líka að á
þeim tíma hafi ekki þótt viðeigandi að kvenfólk færi í
slíka ferð með hópi karla, - né hafi karlarnir haft áhuga
á að hafa „gleðispilla“ með í för! Sem betur fer hefur
viðhorfið breyst og nú fer kvenfólk á fjall til jafns á
við karla.
Árið 1964 fengu konur sína fyrstu fulltrúa á fjalli,
í fyrstu leit. Þá fóru þær Hólmfríður Óskarsdóttir
(Fríða) á Brekku og Theodóra Ingvarsdóttir
(Dóra) í Arnarholti, báðar 17 ára, fyrstar kvenna á
fjall á Biskupstungnaafrétti. Þær höfðu fengið að reka
lambféð inn í Hvítárnes með Ingvari í Arnarholti þá
um vorið og urðu eftir það alveg friðlausar að komast
í fjallferð og alla leið inn á Hveravelli. „Það gengu svo
margar sögur um það hve skemmtilegt væri að fara á
fjall og strákar máttu jú fara þegar þeir voru fermdir“,
segir Fríða. „Þetta var auðvitað ekkert réttlæti!“
Árið1964 þegar þær Dóra fóru á fjall voru komnir
trússbílar og gisting í tjöldum löngu aflögð, svo
sennilega var þetta ekki talið svo hættulegt lengur.
Svo hafði Fríða líka reynslu, því hún hafði farið í
Brekkurnar með Hlíðamönnum frá 1961, þá 14 ára
aldri, þar sem gist var eina nótt í Einifelli. Það gekk
reyndar brösulega að fá leyfi fyrir Brekknaferðinni
fyrst, segir Fríða, því „svona gera stúlkur ekki“ hafði
Óskar sagt við dóttur sína. Málið var að stelpur máttu
ekki fara í fjallferðir þegar þurfti að gista, þær máttu
hinsvegar smala (Úthlíðar)hraunið sem var dagsferð.
Fljótlega upp úr þessu fór Bergþóra Jónsdóttir
(Begga) í Stekkholti (f. 1924) að fara á fjall og fór
í mörg ár, talin karlmannsígildi. Um 1970 fór svo
að verða algengt að stúlkur færu á fjall. Með þeim
fyrstu voru Bryndís Felixdóttir (Brynka í Einholti),
Geirþrúður Sighvatsdóttir á Miðhúsum og Sólrún
Guðjónsdóttir á Tjörn, sem fóru allar í kringum
1970-1971 og Guðrún Hárlaugsdóttir í Hlíðartúni
sem fór 1972 og 1973, allar innan við tvítugt. Upp úr
því varð æ algengara að kvenfólk á öllum aldri færi á
fjall og er svo enn.
Til marks um breytta tíma þá þurfa fjallkóngar nú
á dögum ekki endilega að vera karlmenn. Síðan 2015
hefur Guðrún S. Magnúsdóttir verið fjallkóngur
Tungnamanna og einnig má geta þess að Lilja
Loftsdóttir var í mörg ár fjallkóngur Gnúpverja.
Yfirlit yfir fjallkónga og fyrirliða
Fjallkóngar voru þeir kallaðir áður fyrr, sem voru fyrir
Gránunesleit, (þ.e. fram til ársins 1936). Eftir það voru
fjallkóngar fyrir fyrstu leit á Biskupstungnaafrétti.
Fyrirliðar voru fyrir öðrum leitum.
Til er fjallskilaseðill fá árinu 1928, sem birtur er í
bókinni Göngur og réttir II, bls. 235 og gefur nokkra
hugmynd um þetta. Samkvæmt honum voru þessir
menn fjallkóngar og fyrirliðar á Biskupstungnaafrétti
það ár:
Eyþór í Fellskoti fjallkóngur í Gránunes, (23 menn)
Sigurfinnur á Belgsstöðum (Bergsstöðum nú) fyrirliði
að Seyðisá (8 menn)
Guðmundur í Austurhlíð fyrirliði á Framafrétt
(8 menn).
Safnið við Gýgjarhól á leið til rétta.
►