Litli Bergþór - 01.06.2022, Qupperneq 61
Litli-Bergþór 61
Þarna kynntust þau Garðar og Stenna, sem sagt.
Þau hófu búskap á Austurvegi 21 á Selfossi, um áramótin
1960-61, í kjallaranum hjá Jórunni, systur Garðars. Bóndinn
nýi var lítið þar sjálfur, en hann var þá að keyra bíl í frystihús-
inu Eyrarbakka, en Stenna starfaði í þvottahúsinu á Selfossi.
Síðan gerðist það um vorið, að auglýst var eftir hús-
verði í nýja félagsheimilið sem verið var að byggja í
Biskupstungum. Stenna var áfram um að Garðar sækti um
stöðuna, en hann var síður áhugasamur. Hann hafði frekar
hug á að vera áfram hjá rafmagnsveitunum, ekki síst vegna þess að til stóð að hann yrði þar flokksstjóri. Það varð
úr, að Garðar sótti um húsvarðarstöðuna og var síðan valinn úr hópi nokkurra annarra umsækjenda.
Þegar þetta lá fyrir fóru þau upp í Tungur þann 1. júní. Stenna tók að sér starf ráðskonu í mötuneyti, sem var
rekið í skólanum, fyrir þá sem voru að vinna við félagsheimilið, en Garðar fór að vinna við húsbygginguna.
Félagsheimilið var svo vígt þann 9. júlí 1961 og hlaut nafnið Aratunga, en síðar verður vikið nánar að því hvernig
það kom til.
Nýi húsvörðurinn
Í þessu blaði hefur talsvert verið fjallað um sögu Aratungu gegnum tíðina. Til dæmis má nefna grein Helga Kr.
Einarssonar um byggingarsögu hússins í 3. tölublaði, 1988, umfjöllun í tilefni af 40 ára afmæli hússins í 1.
tölublaði 2001, en þar var, meðal annars, birt erindi sem Garðar flutti fyrir eldri borgara í Biskupstungum og
Hrunamannahreppi og í 2. tölublaði, 2011, í tilefni af hálfrar aldar afmæli hússins, og því verður hér stiklað
nokkuð á stóru um þann þátt.
„Það var ekki líkt neinu að taka við þessu.“ segir Garðar um fyrstu sporin í nýja starfinu. Í framhaldinu
tók hann dæmi eins og það, að kalda vatninu var dælt í tank úr lind í Stekkatúninu hjá Brautarhóli. Síðan
þurfti að fara margsinnis, til að dæla í tankinn þegar samkoma var í húsinu, áður en rafmagn kom þangað.
Það var ekki til stigi og borðum var því raðað hverju ofan á annað til að skipta um perur. Steinunn var hrædd
um bóndann þegar hann var kominn í þriggja borða hæð til að skipta um ljósaperu. „En ég var „kvikk“ á þeim
árum og vanur úr rafveitunum.“ Þarna var engin ryksuga eða bónvél.
Tilsögn var enga að hafa, enda vissi enginn meira en Garðar um hvernig leyst skyldi úr ýmsum málum sem komu
upp á. Þó minnst hann þess að hafa fengið dýrmæta tilsögn á vígsludaginn: „Þá voru kvenfélagskonurnar
búnar að leggja á borð og gera allt klárt og fínt. Þeirra á meðal var Ágústa á Vatnsleysu og dóttir hennar,
Sigríður, kölluð Sísí. Ég sá eitthvert rusl á gólfinu og sótti kúst og ætlaði að fara að sópa, þá glotti Sísí við
mér og sagði „Já, þú ætlar að fara að sópa og búið að leggja á borð!“ Ég áttaði mig þarna á því, að auðvitað
mætti ekki ryka upp. Ég lét mér þetta að kenningu verða. Það á aldrei að sópa og þyrla upp ryki þegar
búið er að leggja á borð.“
Það voru tvær manneskjur í Tungunum sem Garðar hélt sérstaklega upp á. Það voru
þau Ágústa á Vatnsleysu og Karl í Gýgjarhólskoti. „Þau voru eina fólkið sem tók
mér virkilega vel“ Þegar var búið að ákveða að ráða Garðar til húsvarðarstarfsins,
var hann eitt sinn staddur á Spóastöðum. „Þá kom þar hávaxinn bóndi með brúnan
hatt, á Rússajeppa og þurfti að hitta Þórarin. „Já, ert þú Garðar? Ég þekki þig ekkert,
en ég veit, fyrst tengdapabbi þinn treystir þér, þá hlýtur það að vera óhætt.“ Þetta var Karl í
Gýgjarhólskoti.“
„Ágústa þekkti hvernig það var að vera aðkomukona í Tungunum, því Tungnamenn tóku
öllu aðkomufólki með fyrirvara, það þekkti þó mamma hennar Stennu.“ Stenna hafði það
eftir móður sinni, Ingibjörgu á Spóastöðum, að í Tungunum þyrfti aðkomufólk að sanna sig og
að því væri haldið í ákveðinni fjarlægð þar til búið væri að reyna það. Ingibjörg sagði þetta
ólíkt því sem hafi verið fyrir vestan, en þaðan var hún. Aðkomufólki þar hafi strax verið tekið
opnum örmum.
Auglýst eftir húsverði.
Ég hef alltaf verið
Tungnamaður enda
treysta mér allir.
►