Litli Bergþór - 01.06.2022, Blaðsíða 54
54 Litli-Bergþór
Viðgerðir á Skálholtsdómkirkju standa nú sem
hæst, en lýsa þurfti yfir neyðarástandi á kirkjunni
árið 2020 vegna mikils leka í turninum. Þá urðu
töluverðar vatnsskemmdir, þar sem flæddi inná
hæðirnar í turninum, sem geyma bókasafnið, gamalt
og merkilegt safn, sem er að stofni til safn Þorsteins
Dalasýslumanns, auk viðbóta. Þaðan lak niður í kirkju,
ekki langt frá orgelinu.
Á síðasta ári var því ráðist í miklar endurbætur
á dómkirkjunni, utan sem innan. Endurbótum á
listgluggum Gerðar Helgadóttur og altarismynd
Nínu Tryggvadóttur er lokið sem og múrviðgerðum
á tröppunum framan við hana. Nú er verið að skipta
um þakskífur á kirkjunni og gera við allt ytra byrði
hennar, kirkjan verður svo máluð og verður vonandi
orðin hvít í lok sumars. Einnig standa yfir lagfæringar
á rými Gestastofu með það í huga að bókasafni
staðarins verði þar komið fyrir.
Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju hefur tekið að sér
að hjálpa og stýra flutningi bókanna og kirkjuráð hefur
ákveðið að kosta lagfæringar á rými í Gestastofunni
nýju svo safnið geti verið sett þar upp með sóma, bæði
í geymslu, til rannsókna og til sýnis. Þá er til skoðunar
að endurhanna lýsingu inni í kirkjunni og eins stefnir
sóknarnefnd að lagfæringum á gamla kirkjugarðinum
í kringum kirkjuna. Miðað er við að öllum þessum
verkefnum verði lokið fyrir 60 ára afmæli kirkjunnar
2023.
Skipt um klukku.
Undanfarin ár hafa kirkjuklukkur Skálholtsdómkirkju
þagnað hver af annarri, sú fyrsta féll niður og brotnaði
við innhringingu á Skálholtshátíð 2002, fyrir réttum
20 árum og hinar hafa bilað eða hætt að hljóma af
ýmsum ástæðum og voru allar teknar niður í fyrra.
Viðgerðir á Skálholtsdómkirkju
Gömul kirkjuklukka fjarlægð og nýrri komið fyrir
í turni Skálholtsdómkirkju þann 7. júní 2022
Gamla brotna klukkan hífð upp úr kirkjuturninum. Myndir í greininni tók Jón Bjarnason.