Litli Bergþór - 01.06.2022, Síða 4
4 Litli-Bergþór
Hvað höfum við gert?
Það eru ekki litlar breytingar sem hafa orðið á lífsstíl fólks síðustu 100
árin eða svo, eða bara á þeim tíma sem við sem nú lifum munum eftir eða
þekkjum til.
Margir af kynslóð foreldra okkar þekktu það að alast upp í torfbæjum,
lífsbaráttan var hörð, fólk þurfti að lifa af landinu og því sem þar þreifst eða draga björg úr sjó á
smákænum með tilheyrandi manntjóni. Matur, föt og aðrar nauðsynjar, allt var unnið í höndunum
heima, slegið með orfi og ljá í 1000 ár. – Var það umhverfisvænn lífsstíll? – Varla. Landið var svo
harðbýlt að kjarr og land eyddist af ágangi manna og dýra, þó íbúafjöldinn væri aðeins brot af því sem
er nú.
Svo kom tæknibyltingin, öll á einni mannsævi. Eftir hestavinnutæki komu dráttarvélar, bílar,
vélbátar, rafmagn, internet, allskonar tæki og tól til að létta mönnum lífið. Snjalltækin öll, - hvert
tækniundrið eftir annað. Lyf og framfarir í læknisfræði til að halda fólki á lífi. Fólksfjöldi á jörðinni
margfaldast.
Og neysluhyggjan skall á. Einhverntíman fyrir 1980 byrjaði hraðtískan. Föt og aðrar vörur urðu
ódýrari vegna fjöldaframleiðslu í löndum þar sem laun voru lág. Afleiðingarnar þær að fólk, börn og
fullorðnir í fátækari löndum, lendir margt í þrælavinnu neysluiðnaðarins. Vörur fluttar fram og til baka
um heiminn í risa gámaskipum /-bílum með tilheyrandi kolefnisspori.
Vegna þessa er ódýrara að kaupa nýja flík í búð en kaupa efnið í hana, fyrir utan tímann sem
tekur að sauma eða prjóna. Þeirri vinnu var því sjálfhætt fyrir áratugum, að sauma föt á börn og
fullorðna heima. – Ég man greinilega daginn sem ég uppgötvaði þetta, stödd í Vogue að kaupa
mér efni í bol, einhverntíman milli 1970 og ´80. -
Í okkar heimshluta er yfirþyrmandi framboð og ofgnótt af allskonar vörum í stórmörkuðum, -
matur, lífstílsvörur, föt og allskonar gerfiþarfir.. Allt þarf að vera til fyrir alla svo allir geti fullnægt
öllum „þörfum“ sínum og löngunum. Afgreitt í plastumbúðum , sem síðan er sett í plastburðarpoka,
sem fuku út á sjó. - Þar til fréttin kom um plasteyjarnar í hafinu.
Já, þvílík gegndarlaus sóun! – og það er svo stutt síðan þetta byrjaði. – Umframframleiðslu,
af hvaða tagi sem er, hent. Mat, sem er kominn á síðasta söludag, hent þó nothæfur sé. Einnota
fötum hent, eða „gefin“ til þróunarlanda þar sem þau hrúgast upp. - Hráefni jarðar ganga til
þurrðar af því það er ekki til nóg af þeim á þessari jörð, til að framleiða of mikið af vörum
fyrir of margt fólk. Og tilheyrandi mengun.
Þannig hefur það gengið til síðustu 50 árin eða svo. - Og nú er enn einu sinni komið stríð
í Evrópu, sem enginn veit hvar endar. Framtíðin er því óráðin í besta falli. - Ég segi nú bara
eins og sumir, er ekki bara best að fara að venja sig á sjálfbæran lífsstíl og hugsa í leiðinni
aðeins um loftslagsmálin?
Þeir sem bera mesta ábyrgð á mengun lofts og lagar taka allavega ekki ábyrgð á
henni. – Olíuiðnaðurinn hvetur okkur neytendur til að halda áfram að neyta, jú, bara
kolefnisjafna bensíneyðsluna á bílinn eða flugferðina í fríið með því að gróðursetja tré.
Þægilegt að varpa ábyrgðinni á neytendur. Það er allavega nokkuð ljóst að neysla og mengun heldur
áfram meðan við kaupum og neytum.
Hvað getum við gert?
Það dæmist víst á okkur neytendur að taka í hemlana. - Nema stríðsreksturinn geri það fyrir okkur?
Helst viljum við ekki hverfa 100 ár aftur í tímann, til strits og örbirgðar. Einhver millivegur hlýtur að
vera til, svo við getum haldið áfram að lifa heilbrigðu lífi hér á jörðinni? Mannskepnan hefur afrekað
annað eins, svo við skulum vona að hún finni út úr þessu. Finni orkugjafa sem ekki tortíma jörðinni,
skrúfi niður neysluna, læri að tala saman í staðinn fyrir að berjast. – Áður en hún tortímir sér.
Einhversstaðar þarf allavega að byrja til að snúa ofan af neyslusamfélagi nútímans og öll getum við
gert eitthvað, þó að í litlum mæli sé. Sem betur fer hefur orðið vakning, t.d. varðandi plastnotkunina.
Og vonandi uppgötva sem flestir að öll þessi neysla er hvorki holl fyrir okkur né jarðarkrílið, eða gerir
okkur hamingjusamari. - Ekki heldur þá sem græða á neyslu okkar.
Geirþrúður Sighvatsdóttir.
Það er naumast!
Ritstjórnargrein