Litli Bergþór - 01.06.2022, Page 17

Litli Bergþór - 01.06.2022, Page 17
menn reisa tjald. Ef til vill verða endalokin strax fyrstu nóttina en líka getur verið að menn hafi bælt féð og beðið hjálpar. Svo mikið er víst að allt hefur fennt í kaf nema hrossin – menn kafna í tjaldinu vel búnir. Vorið eftir var mikið leitað, en hvergi eru heimildir um að fundist hafi lifandi fé né rytja af hordauðu fé þar suður undan. Til suðurs hlýtur féð þó að hafa leitað, þangað er skemmst í haga og það var áttin heim. Svo er að sjá sem féð allt hafi fennt í hnappi og drepist þar í fönn, hver einasta kind. Varla að ég þori að hugsa það – að sá hópur sem þarna fennti hafi verið graslömb ein – fráfærnalömb – svo torfengnar hafi sauðkindur verið sunnan heiða. Við getum öll hugsað okkur og munað hve þróttlaus graslömb eru að hausti – miklu verr hafa þá efni staðið til við reksturinn en hingað til hefur verið haldið fram. Féð sem Jón Austmann virðist hafa rekið áfram norður og síðar verður getið – gæti þá hafa verið eina fullorðna féð í hópnum. Sjá mátti að hrossin höfðu verið bundin á streng – þá eru þau bundin saman tvö og tvö, þannig að taumur var bundinn í stert á báðum. Sá háttur var hafður á í hagleysu, annars voru þau heft. Hross bundin á streng fóru aldrei neitt. Hrossbeinin voru ofarlega í hólnum og þessi hross hafa snúist þar hvort um annað, tvö og tvö, nokkrar vikur þar til dauðinn líknaði þeim. Nema tvö – graðhestur úr rekstrinum kom hneggjandi sunnan Langholt í Skagafirði þegar rakað var af hrossum í Staðarrétt – á Reynistað – um vorið. Kominn heim, hvíaði að merum og sagði ekkert af veturvist sinni. Og gráa hryssu fundu Hreppamenn á grasafjalli það sama vor þar sem nú heitir Gránunes – um það bil sex Litli-Bergþór 17 ► Beinhóll með vörðu og minnismerki. Bein eru dreifð um brekkuna – ekki eru það upprunalegu beinin enda eru þau fyrir löngu hirt sem minjagripir eða sokkin í jörð og fúnuð. Þau bein sem á myndinni sjást voru fengin að norðan fyrir nokkrum árum – ein heimild segir að þau séu komin úr kjötvinnslu Kaupfélagsins á Sauðárkróki. Hvað sem því líður eru þau ómissandi leikmunir á sviði örlagasögunnar um Reynistaðarbræður. Mynd: Gunnar Rögnvaldsson. kílómetrum sunnan við Beinhól – komin var hún að köstun með reiðinginn undir kviði. Reiðinginn hefur hún borið vegna þess að rekstrarmenn létu hrossin gjarnan halda reiðingnum yfir nótt í vondu veðri, það skýldi heldur en hitt. Hví var Grána ekki á streng? Líklegasta skýringin er sú að hún hafi verið bundin með graðhestinum og hann einhvern veginn slitið sig af henni eða slitið þau sundur. Síðan hafi þau fundið haga í Nesinu og haldið þar saman vetrarlangt. Þegar voraði og hááttin bar í sér þef af álægja merum fyrir norðan hefur stóðhesturinn yfirgefið Gránu sína fylfulla og kaunum hlaðna og runnið norður á lyktina. Þótt Grána hafi lifað veturinn þá varð það ekki meira. Gjarðirnar voru gengnar inn í bein á hryggnum. Hreppamönnum ógnaði hvernig hún var á sig komin, varð það fyrst fyrir að stytta henni eymdarstundirnar og skáru hana á staðnum. En hún hvarf samt ekki. Eftir hana lifir saga. Og nafnið settist á þessa gróðurvin og hún heitir síðan Gránunes. En enginn man, hvað hún hefur heitið áður. 3 Þrettán kvíslar í Þegjandi / Þegjandi í Beljandi / Beljandi í Blöndu þó / Blanda rennur út í sjó – svo segja Húnvetningar og hafa árheitin öll í kvenkyni. Þetta voru fjarlægustu leitir á Tungnamannaafrétti forðum – öðru nafni nefnd Blöndutökin og lentu að mestu norðan girðingar í sauðfjárveikivörnum. Í Þegjandi fannst hestur Jóns Austmanns hálsskorinn vorið eftir – hefur lent niður um snjóloft og ekki verið vegur að ná honum upp. Jón hefur ekki skilið við hestinn lifandi heldur rist niður úr honum. Svo heitir þegar stungið er hnífi inn við kjálkabarðið

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.