Litli Bergþór - 01.06.2022, Blaðsíða 18
og rist niður í kverk í einu handtaki. Þá deyr hesturinn
eins og skotinn, svo ör er blóðrás hans. Reiðtygin skildi
Jón eftir hátt á bakka og fékk sá nafnið Tygjabakki.
Það örnefni mun nú týnt.
Hönd í bláum vettlingi með fangamarki Jóns á
þumlinum fannst ári eða árum síðar við Blöndu. Hana
fann grasakona frá Grófargili í Skagafirði. Guðmundur
frá Brandsstöðum telur það hafa verið á fjalli milli
Ströngukvíslar og Þúfnavatnslækjar. Þar fer Blanda
hæst með vorísana og þar eru grasalönd við ána.
Með því þótti sannað að Jón hefði farist í vök í Beljandi
eða Blöndu. Líkið hefur borist eftir ánni undir ísnum,
frosið þar fast á endanum. Og við ísabrot að vori eru
ekki takmörk á því, hvernig á getur bútað mannslík
niður.
Hundur Jóns kom niður að Rugludal en sá bær var
austan við Blöndu innst í byggð. Á jólaföstu komu svo
níu kindur úr rekstrinum niður að Stafni í Svartárdal
– átta ær og einn hrútur. Hvernig á því gat staðið að
þessar kindur skyldu vera á þessum slóðum á þessum
tíma, hefur orðið mörgum umhugsunarefni.
Á jólaföstu fengu Reynistaðarhjón nágranna sinn,
Jón í Stóru-Gröf, þá sjötugan, til að fara suður og
spyrjast fyrir. Með honum fór átján ára vinnumaður á
Reynistað. Þeir riðu suður í Tungur á fjórum dögum.
Voru þó ekki að flýta sér heim aftur. Fóru ekki fyrr
en viku af þorra – höfðu beðið af sér hláku og höfðu
rifahjarn norður. Riðu þá leið á tveimur sólarhringum.
En norðarlega á Grúfufellsmelum þar sem nú heitir
Dúfunefsskeið fundu þeir tuttugu kindur úr rekstri
Reynistaðarmanna á hagleysu. Þó var féð svo vel á sig
komið að þeir ráku það undan sér 40 kílómetra leið að
Aðalmannsvötnum í drögum Svartárdals. Þangað var
það síðan sótt.
Guðmundur frá Brandsstöðum telur að þetta fé gæti
hafa haft haga í Biskupstungum við Seyðisá fram
yfir jól, þótt lokast hafi fyrir hann eftir hlákuna sem
Grafar-Jón beið af sér syðra. Í hagleysu hafi það lagt
af stað heim, það er í suðurátt.
En sama gildir um þetta fé og það sem kom að Stafni.
Það hefur ekki leitað sjálfrátt norður á bóginn um
langvegu í hagleysu eftir að hafa losnað úr fönn við
Beinhól.
Allir sem farið hafa með fjárrekstur vita hve mikill
munur getur verið á seinfæru fé og því léttrækasta. Því
er freistandi að skipta hópnum upp og nota hraðann á
því léttfæra til að létta á rekstrinum. Og í þessu tilviki
til að koma boðum heim og sækja mannhjálp. Að
skipta hópnum kallar Guðmundur frá Brandsstöðum
ævafornt rekstrarmannaráð.
Jón Austmann hefur því verið kominn í Blöndutökin,
einn á ferð með hund og hest og tuttugu og níu léttfæra
Skaftfellinga. Meðan hinir biðu við hólinn sem síðar
fékk nafn af beinum.
En tuttugu og níu Skaftfellingar áttu eftir að standa af
sér öll veður og berja klakann – gætu hafa verið eina
fullorðna féð í rekstrinum eins og áður hefur verið
getið til.
En ef til vill hefur Blanda þó skilað fleiru en hendinni.
Sumarið 2010 fannst bein úr höfuðkúpu manns á
svipuðum slóðum og höndin í vettlingnum – er nú
geymt í minjasafni Skagfirðinga.
Verið gæti því að höfuð Jóns Austmanns hafi líka
borist upp á bakkann og fúnað þar í sverði í 230 ár.
4
Þegar fyrstu lestir úr Skagafirði fóru suður um vorið
fundu menn tjaldið – litu inn í það og sáu lík undir
ábreiðum – sáu þó alls ekki fyrir víst hvað þau voru
mörg.
Eftir það gerðu Reynistaðarmenn leiðangur suður
á fjöll með fimm líkkistur en fundu aldrei í tjaldinu
nema tvö lík – þeirra Sigurðar á Daufá og Guðmundar
Daðasonar.
Harmur Reynistaðarfólks fékk útrás í því að lögsækja
þá sem fyrst fundu líkin og aðra þá sem vitað var
að farið hefðu þarna um. Kærðu þá fyrir að taka lík
bræðranna úr tjaldinu og fela annars staðar auk þess
að stela þeim fjármunum sem gengið áttu að hafa af
úr fjárkaupunum.
Úr því urðu skelfileg sárindi milli fólks í Skagafirði en
leiddi ekki til nokkurrar niðurstöðu – ég læt þann kafla
málsins utan þessarar sögu.
Bein tveggja manna fundust vissulega á blásnum mel
innan við Kjalhraun fjarri alfaravegi sumarið 1841.
Þau voru ekki sótt fyrr en fimm árum síðar enda
þótti engum líklegt að þar væru bein bræðranna frá
Reynistað.
Ástæðan fyrir því að svo var þó látið heita, var fyrst
og fremst hin almenna samúð í héraðinu vegna
áratugalangrar sorgar Staðarfólks og óvissu – segir
séra Ágúst Sigurðsson í umfjöllun sinni um Glaumbæ
í bókinni Forn frægðarsetur.
Öruggt tel ég að þau bein komi hvergi
Reynistaðarmönnum við. Líklegast er að hvorugur
þeirra bræðra hafi komist í áfanga undir Beinhól,
heldur hafi látist áður en þangað var komið. Margar
hafa hættur verið á leið þangað til dæmis Jökulfallið
sem gæti hafa runnið milli skara.
Hvar svo sem þeir bræður hafa látist þá hefur verið
gengið frá líkunum við þann besta búnað sem menn
kunnu og gátu í té látið – og einkum búið svo um að
ekki kæmist tófan í þau – ekki því að undra þótt þau
hafi orðið torfundin síðar þegar enginn gat til þeirra
vísað.
Öldin tuttugasta og fyrsta er orðin vön óleystum málum
og hún mun sætta sig við það að bein þeirra Bjarna og
Einars séu enn ófundin og muni varla finnast úr þessu.
18 Litli-Bergþór