Litli Bergþór - 01.06.2022, Side 48
48 Litli-Bergþór
oft í einum hóp, sem færði menn og hesta saman fyrir
verkefnin framundan. Eftir að fyrsti náttstaður var
færður inn í Svartárbotna raskaðist sú tilhögun og nú
aka menn sér og hestum sínum til fjalls, sumir
alla leið, aðrir hluta af leiðinni.
Guðrún S. Magnúsdóttir lýsir ágætlega fjall-
ferðum eins og þær eru í dag í grein sinni í
Litla-Bergþóri 2018 (11). Sjá einnig grein Drífu
Kristjánsdóttur um fjallferð árið 1994 (12).
Önnur leit var ávallt kölluð eftirsafn.
Eftirsafnsmenn, 9 að tölu, fóru fram til 1991 í
aðra leit oftast daginn eftir réttirnar. Leituðu þeir
að mestu sama svæði og í fyrstu leit og voru 7
daga, jafn lengi og fyrstasafnsmenn.
Þriðja leit - oftast kölluð eftirleit - var farin
nálægt veturnóttum (helst fyrir 20. október).
Fóru jafnan fjórir til fimm menn í þá leit þegar
veðurútlit var gott og leituðu enn sama svæði og
í fyrri leitum. Leituðu þá helst þar sem fjár var
von og voru í viku. Sjá grein Ingvars Ingvarssonar frá
1963 (13).
Árið 1991 var leitartilhögun eftirsafns og eftirleitar
breytt, þeim steypt saman og leitir styttar í 3-4 daga yfir
helgi. Oft hefur verið farið síðustu helgi í september.
Var það gert til að spara mannafla og minnka kostnað.
Á fjallskilaseðli heitir það nú Eftirsafn innan Hvítár
og Eftirsafn á framafrétt.
Í munni heimamanna heitir leitin innan Hvítár
(5 menn) þó enn eftirleit og fara þeir á fimmtudegi,
en eftirsafnsmenn (7 menn) fara á framafréttinn á
föstudegi og allir koma til baka á sunnudegi. Farið er
á hestum og fjórhjólum og fé sem finnst er sótt á bílum
inn á afrétt, sem sparar mikinn tíma í rekstur. Drónar
hafa einnig verið notaðir til leita.
Þó að ekki sé farið í eftirleit lengur um veturnætur
eru fjárbændur duglegir að aka inn á hálendið fram eftir
hausti, til að svipast um ef þá vantar kindur af fjalli.
Og ef fréttist af kindum á afréttinum, frá ferðamönnum
eða rjúpnaveiðimönnum, er farið af stað með kerru og
hund, jafnvel fjórhjól og kindurnar sóttar.
Brekknasmalamennskur. Hlíðamenn leita svæðið
vestan Fars, árinnar sem rennur úr Hagavatni, og
fara í Buðlungabrekkur, kallað að fara í Brekkurnar.
Er það tveggja daga leit og var áður gist í sæluhúsi
FÍ við Einifell, en í seinni tíð í orlofshúsum í landi
Úthlíðar í Mosaskarði. Seinni daginn er einnig
smalað Bjarnarfell, Sandfell, Kálfársporðar og suður
Úthlíðarhraun. Safnið var, þar til um 1992, réttað í
Hlíðarétt við Dalsmynni, en er nú rekið heim í Úthlíð
og Austurhlíð eftir að réttin fór undir veginn.
Aðstaða fyrir fjallmenn er nú orðin mjög góð á
afréttinum, velbúin sæluhús hafa risið í Fremstaveri,
(endurbyggt 1994), í Árbúðum (byggt 1992) og í
Gíslaskála (stækkaður 2004 þegar nýtt hús var byggt
við skála frá 1978, sem fluttur var inn í Svartárbotna.)
Í skála FÍ við Einifell gista enn þrír menn eina nótt í
fyrstu leit. Góð hesthús hafa verið byggð við skálana í
Fremstaveri, Árbúðum og Gíslaskála.
Hinsvegar er ekki lengur gist í bragganum við
Sandá („Hótel Sandbúðum“), né í húsum Ferðafélags
Íslands í Hvítárnesi, Hveravöllum og Þjófadölum. Nú
eru hestar gjarnan fluttir á kerrum inn í Gíslaskála eða
eitthvað áleiðis í upphafi ferðar, eins eru fjallmenn
fluttir í bílum frá Hveravöllum í Gíslaskála til
gistingar og til baka, meðan hestarnir eru geymdir á
Hveravöllum.
Fjallskilagjöldum, þ.e. kostnaði við smalamennskur
og réttir, var fram yfir 1970 jafnað niður á bændur
af hreppsnefndinni og var mikið verk. Svo þurfti að
handskrifa fjallskilaseðilinn í sexriti. Að frumkvæði
Þorfinns Þórarinssonar á Spóastöðum var sett á
laggirnar sérstök fjallskilanefnd, sem síðan þá hefur
séð um útreikninga og álagningu fjallskila. Þau eru
nú greidd af sauðfjárbændum eingöngu og er ákveðin
upphæð á hverja kind, (nú kr 650,-). Kaup fjallmanna
er svo dregið frá upphæðinni. Þeir sauðfjárbændur
sem ekki nota afréttinn fá afslátt af fjallskilum, sem
er nú 33,33%. (Aflagt var árið 2010 að greiða hluta af
fasteignamati jarða í fjallskilasjóð.)
Smali með tvo til reiðar.
Fjallmenn í Gíslaskála.