Litli Bergþór - 01.06.2022, Blaðsíða 33
Litli-Bergþór 33
Fyrir tímabilið 2021 var félagið tilnefnt Grasrótarfélag
ársins hjá KSÍ. Verðlaunin voru okkur veitt fyrir
,,Frábært uppbyggingarstarf í knattspyrnu barna
og unglinga”.
Að fá þessi verðlaun eru gríðarlegur heiður og
ákveðinn gæðastimpill á það starf sem við höfum
verið að vinna. Við erum nefnilega í þessu af alvöru og
erum fullir af eldmóði og metnaði til að gera þetta vel.
Boðið var upp á sumaræfingar fyrir 8. - 3. flokk. Æft
var á Flúðum, Reykholti, Árnesi, Brautarholti og á
Borg. Félagið tók þátt í ýmsum hraðmótum fyrir 8. -
6. flokk og tefldi fram tveimur liðum á Íslandsmóti í 5.
flokki. Lið 1 vann 4 leiki og tapaði 6. Stærsti sigurinn
kom svo í síðasta leik sumarsins, 8-0 gegn Þrótti
Vogum á Reykholtsvelli.
Á N1 mótinu gekk afar vel. Eftir að hafa tapað
öllum leikjunum árið áður sigruðum við 5 leiki af 8
þetta árið og enduðum í 6. sæti af 24 liðum í okkar
deild.
Sumarið 2022 fer vel af stað hjá yngri flokkum
og aðsóknin góð. Æft verður í Reykholti, Flúðum,
Árnesi, Borg, Brautarholti og einnig á Laugarvatni.
Þjálfarar verða Gústaf Sæland, Sólmundur Magnús
Sigurðarson og Matthías Jens Ármann.
Við munum tefla fram liðum í 5. og 4. flokki á
Íslandsmóti. Munum fara á N1-mótið á Akureyri,
Orkumótið í Vestmannaeyjum og ýmis hraðmót fyrir
yngstu börnin.
Meistaraflokkurinn fer mjög vel af stað en þegar
þetta er skrifað er liðið með fullt hús stiga eftir 3 leiki
í 4. deild. Í Mjólkurbikarnum komumst við í fyrsta
sinn í 2. umferð eftir 8-5 sigur á Kríu Seltjarnarnesi.
Þá mættum við Reyni Sandgerði á Selfossvelli en þeir
spila í 2. deild. Liðið skilaði hetjulegri frammistöðu
og virtist ekki síðra liðið á vellinum, staðan í leikslok
0-0. Í framlengingu var orkan þó á þrotum og sigruðu
Reynismenn á endanum 0-4.
Þjálfari liðsins í ár er Liam Killa og markmiðið er
sett á efstu 2 sætin í riðlinum
sem myndu ekki bara koma
okkur í úrslitakeppni heldur
einnig tryggja áframhaldandi
veru í 4. deild en á næsta ári
verður hún 10 liða deild og
lægri lið enda þá í nýrri 5. deild
eða utan deilda.
Það er því allt undir í ár og
við þurfum á ykkar stuðning að
halda sem aldrei fyrr!
ÁFRAM ÍBU
Sólmundur Magnús
Sigurðarson,
formaður aðaldeildar ÍBU.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ, Gústaf Sæland og Sólmundur Magnús Sigurðarson.
Hvað eru
rafíþróttir?
Í rafíþróttum er æft og keppt í tölvuleikjum.
Það hafa verið stofnaðar rafíþróttadeildir
innan ungmennafélaganna undanfarið og þar
er lögð rík áhersla á að iðka tölvuleiki eins
og aðrar íþróttir, þ.e. lögð áhersla á þjálfun,
markmið og keppni.
Þetta er bæði einstaklings- og hópíþrótt
og þeir sem iðka hana gera það til að ná
árangri og það krefst aga. Æfingatímar eru
afmarkaðir og strangar reglur. Ekki spurning
um að liggja í tölvuleikjum stjórnlaust dag
og nótt til að „skemmta sér“!
Keppt verður í fyrsta skipti í rafíþróttum
á Unglingalandsmóti UMFÍ, sem haldið
verður á Selfossi um verslunarmannahelgina
29.-31. júlí nk.
Rafíþróttadeildin Biskupar var stofnuð við
Reykholtsskóla á síðasta ári.
Þeir sem áhuga hafa geta farið inn á
heimasíðu RÍSÍ, Rafíþróttasamtaka Íslands,
og aflað sér frekari upplýsinga um rafíþróttir.
GS.