Andvari - 01.01.2017, Qupperneq 19
18 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
inngangi að skima yfir sviðið í Norðvestur-Evrópu og minnast á landa-
fundina miklu í lok 15. aldar og á öndverðri 16. öld sem hafi haft áhrif
á þróun iðnaðar og þjóðaviðskipta og leitt til „mikilvægrar þróunar,
upplausnar lénsskipulags miðaldanna og eflingar þjóðríkja“.29 Að öðru
leyti virðist höfundurinn rekja upphaf siðaskiptanna á Íslandi helst til
þess að íslenska miðaldakirkjan hafi undir lokin gerst „ærið haust-
þung“ og ekki megnað að ala upp helga menn. Hann segir siðskipta-
öldina hafa verið öðrum fremur „öld stórbrotinna manna og stórkost-
legra atburða“, þeirra stórbrotnastur hafi verið Jón biskup Arason og
stórkostlegasti atburðurinn aftaka hans og sona hans. Í þessum anda er
síðan greinin samin, og enda þótt hún sé tempruð af fræðilegri yfir-
vegun, lýkur henni með því að sigurkrans er lagður að höfði hetjunnar:
Þar sem barizt er til þrautar um manngildi, trú og hugsjónir einstaklingsins,
varðar lítt um kappsamlega framgöngu liðsmanns. …Hversu sem vizka og
veraldargengi bregðast, er manninum veitt, sé hann fullkomlega trúr sjálfum
sér, að vinna sigur, sem öllum óförum hnekkir, en til þess sigurs verður hann
að berjast einn. Slíkan sigur vann Jón Arason og synir hans í Skálholti 7. nóv.
1550. Þess vegna er þeirra enn minnzt, að liðnum fjórum öldum.30
Björn Þorsteinsson reynir að forðast mærðarfullan málflutning um
einstaka menn en getur samt ekki leynt aðdáun sinni á Jóni Arasyni.
Að því leyti á hann samleið með kennara sínum. En Jón var ekki
sigurvegari einvörðungu vegna þess að hann var trúr sjálfum sér og
hugsjónum sínum heldur fyrir þá sök að málstaður hans bar sigur úr
býtum, þótt á annan veg yrði en hann ætlaði. Og það var göfugur mál-
staður gegn erlendu valdi:
Kaþólska trúin, sem Jón bar einkum fyrir brjósti, átti sér ekki viðreisnar von
hér á landi, en þjóðin sjálf átti eftir að rísa upp og vinna sigur á konungs-
valdinu. Í þeim átökum var barátta Jóns Arasonar og sona hans ómetanleg.31
Jóni Arasyni var sérstakur sómi sýndur í tímariti sósíalista, Rétti, og
var eitt hefti ársins 1950 (3. h.) helgað honum að stórum hluta. Hann
var hetja vegna þess að hann barðist gegn framsali landsins í hendur
útlendra ráðamanna. Það var málstaður sem átti erindi í stjórnmála-
átökum þess tíma, þegar deilt var hatrammlega um aðild Íslands að
Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Björn Þorsteinsson var einn þeirra sem áttu efni í hefti þessu, áð-
urnefnda grein, „Stórveldastríð og stéttabarátta siðskiptatímans“. Þar