Andvari - 01.01.2017, Qupperneq 31
30 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
Fræðimennska er býsna frumstæð aðferð til þess að kynna fólki mannlífið að
fornu og nýju. Hún er oft jafnlangt frá veruleikanum og mynda- og litalaus
grasafræði frá fegurð og fjölbreytni gróðursins. Hún getur orðið ömurlegur
skrápur á vangefnum þjóðarfræðurum, sem hampa því rækilegar smásmugu-
legum staðreyndum sem skilningur þeirra er sljórri á eðli og inntak hlutanna.
Allt um það er starf fræðimannsins göfugt og fórnfúst, því að fróðleiks-
tíningur hans eru völur, sem alskyggn listamaður getur notað í höfuðdrætti
mósaíkmyndar; eða m.ö.o. þá er einhvers konar fróðleikur grind hvers lista-
verks, en fegurst er hold fjarst beini.70
Eitt helsta markmið Björns með doktorsriti sínu var að tengja Ísland betur
við umheiminn en áður hafði verið gert og sýna hvernig það var í reynd
miðdepill pólitískra átaka milli helstu stórvelda á norðanverðu Atlantshafi.71
Eftir að Englendingar uppgötvuðu gjöful fiskimið við Ísland, tóku þeir að
venja komur sínar hingað norður og eiga viðskipti við landsmenn í óþökk
Danakonungs og þeirra kaupmanna í Björgvin í Noregi sem einir höfðu
rétt til Íslandsverslunar. Englendingar fóru sínu fram hér á landi hvað sem
öllum fyrirmælum leið og tóku jafnvel æðstu fulltrúa Danakonungs af lífi,
ef hagsmunir þeirra voru í veði. Einn konungsfulltrúa var, að sögn Björns,
Jón Gerreksson biskup í Skálholti sem dreginn var út úr Skálholtsdómkirkju
í fullum biskupsskrúða og drekkt í Brúará. Þetta taldi Björn að hefði verið
pólitískt morð að undirlagi Englendinga, og þótti það djarfmannleg kenning.
Framlag Björns var einmitt fólgið í því að túlka kunnar staðreyndir á nýjan
og frumlegan hátt en jafnframt að vinna nýjan fróðleik úr heimildum, sem
ekki höfðu áður legið fyrir, og setja efnið í víðtækt sögulegt samhengi:
Siglingin til Íslands var á 15. öld að jafnaði lengsta sjóferð Englendinga um
úthafið, enda nefnd Langa sjóferðin eða Sjóferð löng. Þá hafa oft siglt hingað
á annað þúsund enskir farmenn og jafnvel þúsundir, þegar bezt lét. Þeir munu
hafa stýrt 90 til 99 hundraðshlutum þeirra skipa, sem sigldu um Íslandshaf.
Þær ferðir urðu Englendingum framhaldsskóli í siglingalist og undanfari
mikilla atburða. Á Íslandshafi þjálfaðist mikill fjöldi sjóherja, sem lögðu
grundvöll að enska flotaveldinu.72
Björn sagði ekki að fullu skilið við þetta rannsóknarefni sitt með dokt-
orsriti sínu, því að sex árum síðar kom út ný bók þar sem hann vann
enn frekar úr heimildum og prjónaði aftan við þær allt til síns tíma:
Tíu þorskastríð 1415–1976 (Rv. 1976). Þá var hans þætti lokið í þessu
efni, enda var Björn þeirrar skoðunar að sagnfræðingar ættu ekki að
eigna sér ákveðin fræðasvið heldur væri samvinna vænlegri til að
fleyta þekkingunni áfram.73 Önnur viðfangsefni höfðu jafnframt tekið
tíma hans allan: háskólakennsla, félagsmálastörf og ritun yfirlitsrita.