Andvari - 01.01.2017, Síða 52
ANDVARI BJÖRN ÞORSTEINSSON 51
Mikið mannval var í kennaraliði skólans, þegar Björn réðst þar til
starfa árið 1943, og mun svo hafa verið löngum síðar.139 Í þessum fé-
lagsskap leið Birni vel, og hann naut sín í kennslunni. Helgi Þorláksson
sagnfræðingur varð ungur nemandi Björns og hefur dregið upp skýra
mynd af honum og helstu eðliskostum hans sem kennara á þeim árum:
Björn Þorsteinsson kenndi mér í landsprófi; það var í Gaggó Vest við Selvör
fyrir aldarfjórðungi; þá var kalt stríð og Björn var sagður vera kommúnisti
og varla fyrr farinn að kenna okkur en einn af strákunum tilkynnti honum að
rússneskar ljósaperur væru drasl, eins og það væri Birni að kenna. En óðar en
varði var Björn orðinn vinur okkar og það var fart í íslenskukennslunni. Kalda
stríðið var tekið af dagskrá.
Að loknum kennsludegi hófst skólastarf Björns fyrir alvöru; hann var lífið
og sálin í öllu félagslífi og hreif fólk með sér. Fyrir einhvern ofurmátt hans
og áhuga urðu ólíklegustu menn frambærilegir rithöfundar og svo léku menn
og sungu með tilþrifum og gátu ekki annað því að Björn fékk helsta leikstjóra
þjóðarinnar til að leiðbeina. Sumir teiknuðu, aðrir ortu og sömdu leikrit og úr
öllu saman varð mikil jólaskemmtun, enn meiri árshátíð og fjörlegt skólablað.
Einhvern veginn finnst mér í endurminningunni að Björn hafi vélritað blaðið
og fjölritað en það er víst misminni. Hins vegar var hann hinn mikli frum-
kvöðull og drifkraftur í útgáfunni með öðru.
Mörgum er sagt til hróss að þeir hafi notið sín með ungu fólki og átt auð-
velt með að setja sig í spor þess. Þetta verður líka sagt um Björn. En ekki
aðeins þetta, ungt fólk naut sín með honum, hann var fljótur að tileinka sér
hugmyndir þess og hjálpa því að hrinda þeim í framkvæmd. Þetta voru virkj-
unarframkvæmdir, nýtilegar hugmyndir voru beislaðar, starfsorka virkjuð og
sköpunarþrá beint í farveg. Björn var bæði faðir og félagi í frjóu starfi, sönnu
skólastarfi.140
Björn kunni að meta skynuga nemendur með frjóa hugsun, ríkt
ímyndunarafl og sköpunargáfu og vildi allt fyrir þá gera. Oft rifj-
aði hann upp með augljósri gleði, þegar nemendur í Gagnfræðaskóla
Vesturbæjar settu á svið frumsamið leikrit í anda „Gullna hliðsins“
um raunir eins nemanda við að komast í gegnum hindranir landsprófs-
ins inn í menntaskóla. Nefndist það „Sálin hans Denna. Örlagakviða
með útúrdúrum í tveimur þáttum“ og mun að mestu hafa verið samið
af Helga Skúla Kjartanssyni með aðstoð Níelsar Óskarssonar og undir
verkstjórn Björns.141 En stundum gat líka fokið í Björn: „Ég er að
kasta perlum fyrir svín,“ á hann að hafa hrópað yfir nemendum, þegar
honum var nóg boðið yfir slóðaskap þeirra.142
Um það leyti sem Gagnfræðaskóli Reykvíkinga var fluttur í hús