Andvari - 01.01.2017, Síða 57
56 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
honum veitt lausn frá prófessorsembætti að eigin ósk. Þó fór það svo
að þennan sama dag var hann „af sérstökum ástæðum“ settur að nýju
í embættið, og skyldi sú ákvörðun gilda til 1. júlí 1980.158 Þá var lokið
formlegum starfsferli hans við Háskóla Íslands.
Eitt mál varpaði nokkrum skugga á síðasta ár Björns við Háskólann.
Hann hafði verið valinn til að fara með formennsku í þriggja manna
nefnd til að meta umsóknir um prófessorsembætti sem Ólafur Hansson
hafði áður gegnt. Umsækjendur voru í fyrstu sex, en aðeins þrír þóttu
koma til álita, og varð ekki samstaða um þá í nefndinni. Skilaði Björn
séráliti og hélt því fram að einungis einn umsækjenda væri hæfur, en
aðrir nefndarmenn töldu þá alla þrjá hæfa. Af þessu spruttu harðvít-
ugar deilur og blaðaskrif, menn skipuðu sér í pólitískar fylkingar, og
menntamálaráðherra blandaði sér í málið, en niðurstaðan varð samt
sú að sá sem Björn hafði mælt með hlaut flest atkvæði á fundi heim-
spekideildar eftir mikil skoðanaskipti og var skipaður í embættið.159
Hinir tveir umsækjendurnir urðu síðar einnig prófessorar við Háskóla
Íslands, og nú hafa þeir allir þrír látið af störfum eftir farsælan feril.
Björn hafði stundum á orði að hann vildi hverfa aftur til kennslu á
yngri skólastigum. Þar væru nemendur enn ferskir og frjóir í hugs-
un en ekki alvörugefnir með mótaðar skoðanir eins og honum þóttu
sumir þeirra eldri vera. Hann gerðist því um skeið stundakennari í
Menntaskólanum við Hamrahlíð. Höfundur þessarar greinar fékk leyfi
til að sitja nokkra tíma hjá honum, og var það liður í námi til kennslu-
réttinda. Björn fór eins að og áður, gekk um gólf fram og til baka
og jós án afláts af sínum barmafulla brunni nýstárlegra hugmynda.
Nemendur sátu hljóðir með penna í hendi og blað á borði, tilbúnir að
skrifa niður eftir kennara sínum, en það var eins og enginn vissi hvað
hann ætti að festa á blað. Þó er ekki að efa að þarna hafi einhverjir
verið sem fengu hugljómun, staðráðnir í því að feta í fótspor þessa
meistara.
Ræktunarmaður
Í minningargrein, sem Sigurður H. Þorsteinsson skrifaði um bróður
sinn, leitaði hugurinn til fyrstu samverustunda þeirra bræðra:
Fyrstu minningar mínar eru frá leik á Hellu, t.d. er Högni bróðir okkar var
í heimsókn. Þó sitja sennilega þær lengst er hann hvatti mig til forvitni um