Andvari - 01.01.2017, Qupperneq 58
ANDVARI BJÖRN ÞORSTEINSSON 57
lífið í kringum mig, nágrennið og til hverskonar lestrar og náms. Stundirnar
sem hann gekk með mér um valllendi og hraun í Selsundi og sýndi mér hverja
plöntuna af annarri og útskýrði fyrir mér leyndardóma þeirra og tilgang í ríki
náttúrunnar.160
Náttúran og gróðurríkið var Birni alla tíð hugleikið, og í náttúrufræði
náði hann frábærum árangri á stúdentsprófi eins og áður getur (bls.
13). Hann var baráttumaður fyrir ræktun og uppgræðslu örfoka lands
og lét þau orð falla í viðtali að landeyðing væri „höfuðglæpur“. Engu
væri þar frekar um að kenna en íslenskum sauðfjárbúskap sem væri
víða „vélvædd rányrkja“.161 Þegar Björn mælti þessi orð, var hann orð-
inn roskinn maður, kominn á eftirlaunaaldur og hafði lengi átt í stríði
við þrályndar rollur á Reykjanesskaga. Hann var á þeim tíma ásamt
félögum sínum að vinna brautryðjendastarf sem var ævintýri líkast.
Það hófst í byrjun sjötta áratugarins, þegar Bjarni Bjarnason, skóla-
stjóri Héraðsskólans á Laugarvatni, gaf Skógrækt ríkisins sinn hlut
í jörðinni Straumi, um 2000 hektara. Landsvæði þetta hefur verið
kallað Almenningur frá fornu fari. Með nýjum skógræktarlögum árið
1955 var skógræktarstjóra heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að
leigja einstaklingum, félögum eða stofnunum lönd á erfðafestu innan
girðingar Skógræktarinnar gegn því að leigutakar gróðursettu barr-
skóg í landinu samkvæmt fyrirmælum skógræktarstjóra og samningi
við leigutaka. Allur skógur í landinu skyldi verða eign leigutaka en
meðferð hans og grisjun háð fyrirmælum skógræktarstjóra.162
Fljótlega eftir að lögin tóku gildi, hófust ræktunartilraunir á afmörk-
uðu svæði í Straumi, og um eða upp úr 1960 gerðu fjórir félagar samn-
ing við Skógræktina um leigu á landi til skógræktar. Fékk hver þeirra
tíu hektara. Þessir menn voru: Björn Þorsteinsson, Broddi Jóhannesson,
síðar rektor Kennaraháskólans, Marteinn Björnsson verkfræðingur og
Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur og síðar prófessor við Háskóla
Íslands, allir miklir náttúruvinir.163 Straumsheiðin þótti ekki kræsileg
til ræktunar og tvísýnt um árangurinn, en mennirnir létu það ekki á
sig fá og gengu til verks af eldmóði. Ekki bætti úr skák að girðing-
in, sem átti að afmarka tilraunarreitina, var tæplega fjárheld, svo að
„ókindin“ eða „girðingafanturinn“, eins og þeir kölluðu sauðkindina,
olli þar oft töluverðum usla.
Birni Þorsteinssyni var tamt að skoða athafnir manna í ljósi sög-
unnar, og þannig leit hann einnig á þetta ræktunarstarf. Hann sá fyrir