Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 101
100 HJALTI HUGASON ANDVARI
Vegna þess, að þær eru gersamlega frábrugðnar öllum öðrum ræðum, sem
birzt hafa á íslenzku: Þær standa þeim öllum ofar og framar.
Allir íslenzkir ræðuhöfundar hafa lagt aðal-áherzluna á dauðann og undir-
búninginn undir hann. Þeir hafa hafið trúna upp yfir vonina, kærleikann og
svo náttúrlega skynsemina.
Séra Páll hefur vonina og kærleikann upp yfir trúna og einnig líka skyn-
semina. Samkvæmt þessu lítr hann alt öðrum augum á kenningar kirkjunnar
og ýmsar ritningar greinar enn allir aðrir íslenzkir guðfræðingar, sem komið
hafa fram í dagsbirtuna. Annars talar hann fremr sjaldan um trúna, nema trú
einstaklingsins á mátt sinn og megin og framför mannfélagsins. Þegar þessa
trú vantar, er maðurinn gersamlega trúlaus, segir höf.99
Þarna talaði einn af fulltrúum frelsis- og frjálsræðishreyfingar Suður-
Þingeyinga og staðfesti að húslestrabók Páls í Gaulverjabæ væri postilla nýs
tíma. Þá taldi Guðmundur predikanirnar hvetjandi fyrir alla þar sem höf-
undurinn væri hafinn yfir flokkadrætti, glöggskyggn og raunsær. Með tilliti
til þess sem hér hefur komið fram er þó vissulega vafasamt að Páll hafi verið
hafinn yfir flokkadrætti. Þá taldi Guðmundur að ræður Páls einkenndust af
framúrskarandi skáldlegum samlíkingum. Þrátt fyrir að höfundurinn væri
ekki eins mælskur og til dæmis Jón Bjarnason.100 Gekk hann þar vissulega
lengra í lofinu en Matthías Jochumsson og Valdimar Briem höfðu gert. Síðar
ritaði Guðmundur:
Hverjar hugsjónir lifa annars lengst í heimi bókmentanna? Það eru hugsjónir
spekinnar, kærleikans og skáldlistarinnar. — Rödd þessarar þrenningar andar
hlýjum blæ gegnum alla Páls-postillu; […]101
Síðar (1896) brást Guðmundur svo við dómum Friðriks J. Bergmann, Jóns
Helgasonar og að nokkru leyti Jóns Bjarnasonar um postilluna. Lét hann þá
svo um mælt:
Bókin er andleg lækningabók, klædd í búning skarpsýnna athugana og skáld-
legra samlíkinga. Hún hefir jörðina undir fótum sér og himininn yfir höfðinu,
og heldr sér við jörðina og skiljanlega hluti. Hún prédikar trú af innilegri
sannfæringu — trúna á lífið, þ.e. trúna á sigr hins góða, trúna á sigr ljóssins
og vizkunnar yfir myrkrinu og fávizkunni.102
Guðmundur áleit muninn á Páli Sigurðssyni og gagnrýnendum hans felast í
að þeir síðarnefndu teldu að skilyrði þess að komast inn í Guðs ríki væri að
trúa fastákveðnum kennisetningum, sem og að þeir sæju Guðs ríkið fyrir sér
sem fjarlægt hamravígi sem mögulegt væri að reka fólk inn í með óttann að
svipu. Sýn Páls væri á hinn bóginn allt önnur: