Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 112
ANDVARI ÍSLENDINGASÖGUR Í MÓTUN 111
Þessi fyrsta íslenska prentun Íslendingasagna er þannig skýr vísbending
um að bókmenntasmekkurinn á miðri 18. öld hafi verið talsvert frábrugðinn
því sem tíðkaðist á dögum „íslenska skólans“ í fræðimennsku sem mest
áhrif hafði allt frá upphafi 20. aldar fram undir 1980.12 Það eru „unglegu
sögurnar“ sem njóta mestrar hylli: rómantískar sögur, ævintýrasögur,
lygisögur, en takmarkaðan smekk má greina fyrir hinu ímyndaða raunsæi
Íslendingasagnanna eða gildi þeirra sem sögulegra heimilda. Þannig varð
það enn um sinn: umtalsverður áhugi var þannig í upphafi 19. aldar á
sögum sem ekki gerðust á Íslandi, s.s. konungasögum og fornaldarsögum
Norðurlanda. Það er ekki fyrr en með vaxandi pólitískri þjóðernishyggju 19.
aldar að Íslendingasögur fá aukið vægi.
Íslendingasögur á prent á 19. öld
Tveggja binda útgáfa Björns Markússonar var sannarlega ekki heildarútgáfa
Íslendingasagna; aðeins tólf sögur voru þar prentaðar en Íslendingasögur eru
iðulega taldar um 40 í nútímaútgáfum og yfirlitsritum.13 Raunar varð all-
nokkur bið á að Íslendingasögur væru gefnar út í heild sinni, það beið loka
19. aldar og aðalpersónu þessarar ritgerðar, Sigurðar Kristjánssonar bóksala
og bókaútgefanda (1854–1952). Ein afleiðing þess er að útgefendur þurftu
ekki endilega að taka afstöðu til þess hve fjölmennur sagnaflokkurinn væri
og nákvæmlega hvaða textar teldust til Íslendingasagna.
Á 19. öld komu aftur á móti flestar Íslendingasögur á prent í fyrsta sinn
í ýmsum ágætum útgáfum sem voru þó langt frá því að vera heildarútgáf-
ur þessa sagnaflokks. Þar ber einna hæst útgáfu Hins konunglega norræna
fornfræðafélags í Kaupmannahöfn í tveimur bindum (Íslendínga sögur)
sem Þorgeir Guðmundsson (1794–1871) og Þorsteinn Helgason (1806–1839)
sáu um (1829–30) en þar voru gefnar út sex sögur (flestar norðlenskar) auk
Landnámabókar sem hafði verið gefin út strax á 17. öld. Einnig komu út
sex sögur (flestar af Vesturlandi) auk Landnámu í fjögurra binda útgáfu
sama félags 1843–1889 (Íslendinga sögur) sem Jón Sigurðsson (1811–1879),
Konráð Gíslason (1808–1891) og Eiríkur Jónsson (1822–1899) höfðu veg og
vanda af, tvö bindi þar af voru hin kunna Njáluútgáfa Konráðs.
Á þessum tíma blómstraði einnig ritröðin Nordiske Oldskrifter þar sem
Konráð, Halldór Kr. Friðriksson (1819–1902) og fleiri voru meðal útgefenda og
ýmsar Íslendingasögur komu út í henni, jafnan ein í einu. Árin 1880–83 kom
síðan út vegleg þriggja binda útgáfa á vegum Hins íslenska bókmenntafélags
í Kaupmannahöfn, Íslenzkar fornsögur, sem Guðmundur Þorláksson (1852–
1910) og Finnur Jónsson (1858–1934) stóðu fyrir. Alls voru þar gefnar fimm
sögur (allar norðlenskar) og einn þáttur. Íslendingasagnaútgáfan var þannig