Andvari - 01.01.2017, Page 115
114 ÁRMANN JAKOBSSON ANDVARI
Íslendingasagna væri hún þannig ásamt Hrappseyjar-Eglu næstelsta dæmið
um Íslendingasögu prentaða á Íslandi. Hún hefur hins vegar ekki verið álitin
frá miðöldum. Engir Íslendingasagnaútgefendur 20. aldar litu því við henni
aðrir en Guðni Jónsson sem gaf hana út í 12. bindi Íslendingasagnaútgáfu
sinnar (Íslendinga sögur XII: Árnesinga sögur og Kjalnesinga) árið 1947.
Guðni gaf þar bæði út eldri Ármannssögu eftir Jón Þorláksson sýslumann
(1643–1712) og sögu Halldórs sem hann telur samda af honum sjálfum undir
lok 18. aldar.23
Sigmundur Guðmundsson prentari var nefndur hér að framan sem út-
gefandi Flóamannasögu. Sigmundur hafði numið prentiðn hjá fyrrnefndum
Einari Þórðarsyni en síðan í Kaupmannahöfn og á Bretlandseyjum. Árið
1877 kom hann til Reykjavíkur með enska hraðpressu sem hann keypti fyrir
Björn í Ísafold. Hann setti svo sjálfur upp eigin prentsmiðju sem hann seldi
Sigfúsi Eymundssyni árið 1887. Flóamannasaga var fyrsta fornsagnaút-
gáfa hans en í kjölfarið lagði hann í þriggja binda útgáfu fornaldarsagna
Norðurlanda ásamt Valdimar Ásmundssyni ritstjóra Fjallkonunnar (1852–
1902).24 Fyrsta bindið kom út árið 1885, Fornaldarsögur Nordrlanda. Því
fylgir níu síðna formáli Valdimars þar sem fram kemur að útgáfan er að
mestu leyti endurprentun á fyrsta bindi fornaldarsagnaútgáfu C.C. Rafn sem
gefin var út í Kaupmannahöfn 1829–30, sem komi þar með „fyrir almennings
sjónir“ (bls. iii). Í þremur tilvikum segist Valdimar þó hafa fylgt nýrri út-
gáfu Norðmannsins Sophus Bugge (Norrøne skrifter af sagnhistorisk ind
hold, 1864–73).
Valdimar kveðst einnig hafa litið í önnur handrit en Rafn hafði gert og
„leiðrétt söguna á fám einum stöðum“ (vii). Í formálanum lýsir Valdimar
því að hugmynd Sigmundar hafi verið að endurútgefa Rafn en gefur til
kynna að hans eigin metnaður hafi verið heldur meiri: „Þess var full þörf,
að prenta af nýju sögur þessar, því að þær gerast nú mjög fágætar. Herra
Sigm. Guðmundsson, er prentar þær nú á sinn kostnað, bað mig að búa
þær til prentunar og óskaði þess einungis, að fylgt væri meginmálinu í út-
gáfu Rafns“. Í fornaldarsagnaútgáfunni voru sögurnar þannig gefnar út eftir
öðrum eldri útgáfum eins og gert er einnig í ýmsum síðari almenningsút-
gáfum þó að í formálum Valdimars kæmi fram að enn betra hefði verið að
„bera saman öll hin elztu og beztu handrit sem til eru af sögum þessum“ (2.
bindi, bls. vii).
Annað bindi þessarar fornaldarsagnaútgáfu kom á prent árið 1886 og það
þriðja árið 1889. Þá hefur hins vegar nýr kostunarmaður tekið við útgáfunni,
Sigurður Kristjánsson bóksali. Árið 1886 hóf Sigurður einnig útgáfu annarr-
ar ritraðar er nefndist Ævintýra-sögur en urðu aðeins tvö bindi (Ingvarssaga
og Erexsaga). Aftur var það Valdimar Ásmundsson sem bjó sögurnar til