Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 133
132 SOFFÍA AUÐUR BIRGISDÓTTIR OG SNÆVARR GUÐMUNDSSON ANDVARI
„Upp um þennan glugga skulum
við horfa saman á Síríus seinna í vetur“
Sjáið þér! Þessi stóra stjarna þarna neðarlega á kortinu, teiknuð með rauðu,
heitir Síríus. Á íslenzku kalla þeir hana Hundastjörnu. Það á víst að vera af
því, að hún er í stjörnumerki, sem heitir Stóri hundurinn. Hún er fegurst allra
stjarna á norðurhveli himins. Hún er ákaflega falleg. Hún glitrar í hvítum
og bláum, grænum, rauðum og gulum litum. Það er dásamleg sjón. En hún
sést ekki á kvöldin fyrr en lengra líður út á, af því að hún er svo sunnarlega
á hvelfingunni. Á ég að sýna yður hana einhvern tíma upp um þakgluggann
hérna frammi á þurrkloftinu, þegar hún fer að koma við á kvöldin? Hún sést
bezt þaðan. Við sjálfan mig: Þá kyssi ég hana.25
Þórbergur biður stúlkuna, sem hann síðar nefndi aldrei annað en elskuna, fyrir
alla muni að kalla Síríus aldrei Hundastjörnuna: „Það er svo smekklaust“ og
„sýnir þursaskap Íslendinga við fegurðina að geta kallað svona dásamlega
stjörnu Hundastjörnu.“26 Þótt Þórbergur átelji hér Íslendinga sérstaklega skal
bent á að Síríus, sem frá ómunatíð er björtust fastastjarnanna, hefur verið
auðkennd sem Hundastjarnan í þúsundir ára og er þekkt sem slík í flestum
tungumálum. Sem dæmi má nefna að í grískum goðsögnum var Stórihundur
(merkið sem Hundastjarnan er kennd við) gjöf Seifs til Evrópu, hundurinn
sem aldrei mistókst að veiða. Gríski ævisagnaritarinn Plutarch (46-120 e.
Kr.) nefndi hana „leiðtogann“.27 Áfram heldur frásögnin af samtali þeirra um
stjörnuhimininn með innskotum um tilfinningar Þórbergs sem færast sífellt
í aukana eftir því sem hann horfir á fleiri líkamshluta stúlkunnar; fingur,
augu, rjóða vanga, drifhvítar hendur. „Ó, guð, hvað ég elska þessa stúlku
innilega!“ hugsar hann með sér, en jafnframt (í beinu framhaldi): „Það var
öll kvensemi hreinsuð burt úr mér. Ég var ekkert annað en tær ást. Þetta var
áreiðanlega sú sanna ást“.28
Í textanum kallast fegurð stúlkunnar og fegurð Síríusar stöðugt á: „Síríus
er fegursti himinlíkami, sem auga manns er lánað að sjá á næturhimni norð-
ursins. Og þó er hann óralangt frá okkur. Vitið þér, hvað Síríus er langt í
burtu?“ spyr Þórbergur og svarar: „Hann er svo langt í burtu að byssukúla,
sem skotið væri á hann héðan úr þakglugganum, þyrfti meira en 700.000
ár til að komast til hans. Og samt er hann næst okkur af öllum fastastjörn-
um, sem eru fyrir utan okkar sólkerfi.“29 Reyndar þekkjast nú á dögum tólf
stjörnur nær en engin þeirra skín jafn skært og Síríus.30 Það skyldi ekki
gleymast að sagan á sér stað snemma á 20. öld, áður en nálægð þeirra var
uppgötvuð. Á svipaðan hátt má segja að stúlkan sé sú „fastastjarna“ sem
stendur Þórbergi næst í heimi Ofvitans og Íslenzks aðals en er um leið svo