Andvari - 01.01.2017, Page 141
140 SOFFÍA AUÐUR BIRGISDÓTTIR OG SNÆVARR GUÐMUNDSSON ANDVARI
antíska hugsjón á heimkynni sín á himnum og líkist í eðli sínu skýjaborgum
sem sífellt falla og eru endurreistar til þess eins að falla enn á ný.
Í kaflanum „Fyrsta endurfæðing mín“ í Ofvitanum lýsir Þórbergur því
þegar hugmyndir hans „um mismun kynjanna breyttust úr hlutlausri
viðurkenningu á staðreynd í innfjálga kennd“. Áður en það gerðist höfðu
hugsanir hans reikað „flestum stundum um hina skíru vegu skynseminnar“.
Hann hafði að vísu fundið „til einhverra innri hræringa við lestur kvæða eða
yrkingu rímna á göngum [sínum] úti um snævi drifna vetrarhaga. En það átti
sér engan dýpri tón í vitund [hans], engan óendanleik, engan bláma, engan
söng í þögninni“, eins og þar segir.
Mestallur unaður lífsins var í landafræði, teikningum, mælingarlist, reikn-
ingskúnst, hringrás frumefnanna. Þegar hugurinn þráði svolítið hliðarhopp út
af daglegum leiðum skynseminnar, flýði hann til söngva minnar eigin raddar,
upp á stjörnubjarta festinguna á heiðskírum kvöldum eða upp í klettana fyrir
ofan bæinn, auðugasta listasafns aldanna.62
En þegar sá dagur kom loks yfir hann að „hin kaldræna viðurkenning á stað-
reynd kynjanna breyttist í innfjálgan munuð“ og hann varð í fyrsta skipti
ástfanginn af stúlku:
Þá var eins og guð hefði skapað nýjan mann, nýjan ofvita og nýjan heim.
Á fáum vikum var allt orðið nýtt. Hin gömlu hugðarefni hrunin eins og
stjörnuhröp af himni sálarinnar. Engin landafræði lengur til, engin teikning,
engin mælingarlist, engin reikningskúnst, engin hreyfing á hringrás frum-
efnanna. Aðeins kvöldhiminninn og söngur minnar eigin raddar lifðu eftir.
Og rósemi sálarinnar dáin.63
Þórbergur grípur ítrekað til myndmáls sem ættað er af himni; vonbrigði eru
„stjörnuhröp af himni sálarinnar“. Um slíkt má finna ótal dæmi, eitt af þeim
skemmtilegri er þegar hann veltir fyrir sér eðli mannlegra fýsna, í kaflanum
„Nýtt líf“ í Ofvitanum, og spyr: „Hreyfast fýsnir okkar eftir líkum lögum og
halastjörnur? Reika þær um inni í myrkrum hins óþekkta og blossa svo skyndi-
lega á festingu sálarinnar, hverfa svo hljóðlaust og koma aftur eftir óratíma
innan úr myrkrunum?“64 Þegar Þórbergur hefur gengið í gegnum þá reynslu
sem lýst er í kaflanum um fyrstu endurfæðinguna „hófst stjörnufræðin til
æðri dýrðar. – Stjörnuhiminn, – það var sá heimur, sem var ofar öllu mann-
lífi, öllum ljóðum, ofar öllum meyjum „með húfu og rauðan skúf í peysu“.65
Endurfæðingin sem sprettur af hinum innfjálga munuði og beinir vitundinni
að stjörnuhimninum hefur vitaskuld einnig þær afleiðingar að hugur Þórbergs
fer að „hneigjast meira og meira að svo nefndum kenndarbókmenntum, fyrst
lýriskum tregaljóðum, síðan að hvers konar rímuðu máli nema söguljóðum.