Andvari - 01.01.2017, Page 165
164 AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR ANDVARI
Ebeneser bregst við fréttunum um að Guðrún Vatnalilja sé ekki blóðskyld
honum með því að láta húðflúra hvíta vatnalilju á brjóst sitt – með því að
gera hana bókstaflega hluta af sínu holdi, sínu blóði. Við getum líka valið
það hvernig við skilgreinum samband okkar við þá einstaklinga á flótta –
börn sem fullorðna – sem leita skjóls hjá okkur þessa dagana. Munum við
halda áfram að svara endurteknum vitnisburði þeirra í fjölmiðlum með þög-
ulli endurtekningu á vélrænu ferli brottvísana, eða getum við axlað það að
hlusta – og svara – af ábyrgð?
Anne Whitehead segir í bókinni Trauma Fiction að skáldsagnahöfundar
tjái áföll með texta sem líki eftir einkennum áfalla þannig að tímaröð og
skipulag hrynur og frásagnir einkennast af endurtekningum og krókaleið-
um.17 Þetta má sjá greinilega í skrifum Naju Marie Aidt um sonarmissinn.
Hún kemur aftur og aftur að upplifun sinni á sjálfu áfallinu, stundinni þegar
hún fréttir af banaslysinu, en frásögnin breytist örlítið í hvert skipti, verður
ítarlegri, nær lengra, vinnur áfram úr atburðinum og afleiðingum hans. Þetta
er óbærilegt en óhjákvæmilegt verkefni syrgjandans, eins og hún bendir á
með tilvitnun í Roubaud:
Dette billede viser sig for tusinde gang. med samme vedholdenhed. det kan
ikke lade være med at gentage sig i det uendelige. med samme grådighed i
detaljerne. jeg ser dem ikke svækkes. (17)
Á sama hátt kemur Auður Ava sífellt aftur en á mismunandi hátt að þján-
ingunni í höfundarverki sínu; trámanu við aðskilnað, svik, limlestingar og
dauða. Þótt textinn í Ör sé ekki trámatískt brotakenndur, ekki í upplausn,
ekki árás gegn tungumálinu eins og texti Naju Marie Aidt, þá fjallar hann
líka um hið ómögulega en lífsnauðsynlega ferli að koma hinu ósegjanlega í
orð, í flóknu samspili þagnar og skrifta, gleymsku og minningar.