Orð og tunga - 2023, Blaðsíða 142
Ágústa Þorbergsdóttir og Guðrún Kvaran: Mannanafnaskrá 133
karlmannsnafni en nafnið á sér auk þess ríka hefð sem kvenmanns
nafn (Auður, Auði, Auði, Auðar). Öll þessi þrjú nöfn, Blær, Elía og Auður,
eiga það sammerkt að þess finnast dæmi í íslenskum heimildum að
nafnið, sem um ræðir, hafi verið notað hér á landi í almennt þekktum
bókmenntatexta á bæði kyn og töldust því, samkvæmt íslenskum lög
um um mannanöfn, bæði kvenmanns og karlmannsnöfn.8
Eiginnafnið Júní (mál 4/2014) var fært á mannanafnaskrá 2014 sem
kvenmannsnafn (Júní, Júní, Júní, Júníar) enda þótt það hefði verið skráð
árið 2008 (mál 65/2008) sem karlmannsnafn (Júní, Júní, Júní, Júnís). Í
úrskurðinum um Júní sem kvenmannsnafn var m.a. horft til þess að
lítil hefð væri fyrir nafninu Júní á Íslandi og því væri ekki hægt að líta
svo á að nafnið gæti ekki verið kvenmannsnafn í íslensku þótt áður
hefði það verið notað sem karlmannsnafn í einhverjum tilvikum. Í
úrskurðinum var enn fremur horft til þess að í enskumælandi löndum
ætti samsvarandi nafn, June, sér hefð sem kvenmannsnafn.
Mannanafnanefnd hefur úrskurðað þrívegis um eiginnafnið
Karma. Í fyrsta úrskurðinum árið 2014 (mál 57/2014) hafði verið sótt
um nafnið sem karlmannsnafn með eignarfallsmyndinni Karmas en
beiðn inni hafnað á þeim forsendum að nafnið tæki ekki íslenskri
eign ar falls end ingu. Málið var endurupptekið 2016 (mál 39/2016) þar
sem manna nafnanefnd endurskoðaði úrskurð sinn og var nafnið fært
á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Körmu, sbr. beyg ingu
karl mannsnafna eins og Sturla og Skúta. Árið eftir var sótt um nafnið
Karma sem kvenmannsnafn (mál 17/2017) og var beiðnin sam þykkt.
Í úrskurði mannanafnanefndar kom fram að nafnið hefði ekki öðlast
hefð sem karlmannsnafn í íslensku máli og beygðist sam kvæmt al
gengri beygingu kvenkynsnafna en sjaldgæfri hjá karl manns nöfn um.
Það væri því ekkert sem kæmi í veg fyrir að það yrði einnig notað sem
kvenkyns eiginnafn.
Karlmannsnafnið Eir er ungt (Eir, Eir, Eir, Eirs) og var samþykkt á
mannanafnaskrá 2016 (mál 82/2016) og er talið vera leitt af orðinu eir
‘málmur’. Kvenmannsnafnið Eir (Eiri, Eiri, Eirar) er fornt ásynjunafn
sem kemur fyrst fyrir á áratugnum 1930–1940 og talið af sögninni að
eira, ‘hlífa, vernda’ (Guðrún Kvaran 2011:172). Nöfnin eru því ólíks
uppruna þótt þau séu samhljóma og í úrskurði mannanafnanefndar
segir að ekkert standi í vegi fyrir því að þessi samhljóma nöfn séu
bæði notuð, annað sem karlmannsnafn en hitt kvenmannsnafn.
8 Sbr. orðalag í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E2125/2018 um eiginnafnið Alex.
tunga25.indb 133 08.06.2023 15:47:17