Orð og tunga - 2023, Blaðsíða 63
54 Orð og tunga
algengt þar, og þá oftast íslensku orðmyndirnar fokka og fokk. Enska
lýsingarháttarmyndin fucking er yngri í málinu, eða frá lokum 10.
áratugarins og síðar, og þá oftast hin íslenskaða mynd hennar, fokking.
Í þeim textum sem athugaðir voru er þessi orð ekki síst að finna í
greinum sem skrifaðar eru fyrir ungt fólk, t.d. í helgarblöðum dagblaða
og í viðtölum við tónlistarfólk. Þau sjást líka í skáldsögum síðari ára
þar sem þau hafa oft það hlutverk að gefa textanum óformlegan blæ,
talmálslegt, kæruleysislegt og/eða tilfinningaþrungið yfirbragð. Segir
það kannski betur en margt annað hversu miðlæg þau eru orðin í
íslensku talmáli.
Ekki hefur verið gerð sjálfstæð athugun á notkun þessara orða í
talmáli svo mér sé kunnugt en ýmsir sem spurðir hafa verið kannast
við notkun a.m.k. upphrópunarinnar fuck (fokk) allt frá miðjum 8.
áratug síðustu aldar.
Eins og flestir munu geta staðfest út frá eigin máltilfinningu og
þekkingu á íslensku máli undanfarinna áratuga eru þessi orð lang
oftast rituð með ‘o’ og borin fram [fɔhk], [fɔhka] og [fɔhkiŋ]. Leit á
Tímarit.is og í Íslensku textasafni staðfestir þetta.14 Margir sem rætt
hefur verið við hafa þó heyrt þessi orð borin fram með [œ] og dæmi
er að finna um ritmyndina fökk í blöðum og tímaritum, þau elstu frá
1987, en þau eru þó í miklum minnihluta. Þess má geta að leit á netinu
skilar nýlegum dæmum um ritmyndir eins og fökkd, fökkt o.fl.15 sem
benda til framburðar með [œ]. Þetta kann að vera bundið við þessa
tilteknu beygingarmynd ensku sagnarinnar, fucked (lýsingarháttur
þátíðar), sem er þá tekin upp sem sérstakt og nýtt tökuorð, eiginlega
sem lýsingarorð og án skýrra tengsla við hefðbundnar íslenskar eða
íslenskaðar orðmyndir enska orðsins fuck. Hér er framburðurinn sá
sem búast má við að stutt enskt [ʌ] eða [ə] fái í íslensku.16
Sagnorðið fellur í 1. flokk veikra sagnorða og beygist því eins
14 Þetta þýðir þó ekki að enskar ritmyndir komi ekki fyrir. Leit að stafastrengnum
<fuck> á Tímarit.is (júlí 2022) skilar rúmlega 1.500 síðum og leit að strengnum
<fucking> rúmlega 1.300 síðum. Raunveruleg dæmi eru væntanlega a.m.k. jafn
mörg eða fleiri en síðurnar sem koma upp (sum eru þó e.t.v. eitt og sama dæmi
tví eða fleirtekið). Ekki var ráðist í að greina þessi dæmi en langflest þau sem
skoðuð voru eru úr tilvitnunum á ensku eða eru hluti af enskum eða enskulegum
nöfnum og titlum, t.d. á kvikmyndum.
15 Ég þakka ritrýni fyrir að benda á þessi dæmi.
16 Þetta væri áhugavert að skoða nánar og fylgjast þá jafnframt með því hvort
framburður sérhljóðsins í hinni íslensku mynd enska orðsins fuck eigi eftir að
breytast á komandi árum. Ef hann gerir það (breytist úr [ɔ] í [œ]) væri það – a.m.k.
formlega séð – dæmi um að orðið væri tekið upp í annað sinn.
tunga25.indb 54 08.06.2023 15:47:15