Orð og tunga - 2023, Blaðsíða 159
150 Orð og tunga
mynda, fara vaxandi. Þetta eru aðeins fáein dæmi um svið sem nýtt
hafa verið síðasta aldarfjórðunginn og verður nú fjallað nánar um
þau helstu. Ekki er viðlit að nefna öll ný nöfn í öllum flokkum.
2 Náttúran
Náttúran er stór flokkur og margt sem gæti rúmast þar bæði dautt og
lifandi. Spendýr, fuglar, blóm og tré eru uppspretta fjölda nafna. Ljós,
myrkur, haf og vindar móta mannlíf og dýralíf í landi þar sem vetur
eru dimmir og sumur björt, hafið stundum úfið, stundum slétt og
vindurinn ýmist hægur eða blásandi. Vegna fjölda nýrra nafna verður
hér stiklað á stóru til þess að gefa örlitla hugmynd um nafnavalið á
tímabilinu.
2.1 Dýr og jurtir
Dýraheiti voru nokkuð algeng til forna, bæði ósamsett og samsett,
og flest hafa þau lifað fram á þennan dag. Sum komu fyrir í fornum
heimildum eins og Rjúpa, Grís, Hafur, Lambi, Refur og Tófa. Af þessum
nöfnum hafa Lambi, Refur og Tófa verið endurvakin á því tímabili
sem er til umfjöllunar en hin eru horfin (Guðrún Kvaran 2002:238).
Ný spendýraheiti eru Ísbjörn, Tarfur, Uxi og Ylfingur. Samsett nöfn
eru allmörg og ekki rúm til að taka þau öll með. Hér verða aðeins
nefnd nokkur dæmi með úlfur sem fyrri eða síðari lið en annars vísað
á mannanafnaskrá á island.is: Úlftýr, Úlfey, Bergúlfur, Björnúlfur, Borg
úlfur, Frostúlfur, Náttúlfur, Sólúlfur.
Þónokkur fuglaheiti hafa bæst við nafnaflóruna. Þar má nefna
Fálki, Jarpi, Kjói, Kráka, Krumma, Lundi, Sólskríkja, Spói, Tildra og Tjaldur.
Nafnið Rita er einnig nýlegt á mannanafnaskrá en óvíst er hvort þar er
um fuglinn að ræða eða erlent kvenmannsnafn. Í flokki fugla finnast
einnig samsett nöfn eins og Hrafnfífa, Hrafnhetta, Hrafnsunna, Hrafnrún,
Hrafntýr, Hrafnynja, Hrafnþór, Nátthrafn, Sólhrafn og viðskeytta nafnið
Svaný.
Jurtaheiti eru nokkur, bæði heiti á trjám og blómum. Þar má nefna
Fífill, Hvannar, Lótus og Þinur og samsettu nöfnin, Alparós, Bláklukka,
Hrafnfífa, sem vísar bæði til fugls og jurtar og Melasól.
tunga25.indb 150 08.06.2023 15:47:17