Orð og tunga - 2023, Blaðsíða 179
170 Orð og tunga
Sveinbjarnar Egilssonar, ritgerð Björns Jónssonar (1959) um nýyrði í
þýðingu á náttúrufræði (Undirvísun í náttúruhistoríunni) eftir Anton
Friedrich Büsching sem birt var í ritum Lærdómslistafélagsins seint á
18. öld og grein Bjarna Vilhjálmssonar (1951) um orðasmíð Sigurðar
skólameistara.
Jónas á slíka umfjöllun sannarlega skilið enda þekktur fyrir nýyrði
sín. Um áhrif Jónasar á þróun íslensks máls á 19. öld segir Halldór
Halldórsson (1971:226):
Sú trausta undirstaða, sem hann [þ.e. Jónas] hafði í eyfirzku
alþýðumáli, öruggur kunnleiki á fornmálinu ásamt óvenju
legum hæfileikum, gerðu hann að einum mesta meistara allra
alda í meðferð móðurmálsins. Hér skiptir þó höfuðmáli, að
Jónas var mikill og listrænn nýyrðasmiður.
Á sporbaug hefst á einhvers konar formála eða inngangi þar sem
höfundar fjalla um persónulegt samband sitt við rit og verk Jónasar.
Því næst er fjallað sérstaklega um liðlega 220 einstök orð og þau sýnd
í samhengi í verkum Jónasar í sjö köflum sem nefnast: Ástkæra ylhýra
málið á ljóðum Jónasar; Sundreglur prófessors Nachtegalls; Náttúrufræðin,
allra vísinda indælust; Fuglar; Um eðli og uppruna jarðarinnar; Stjörnufræði,
ljett og handa alþýðu; Vorboðinn ljúfi, ekki eftir Jónas. Allmörg kvæði
Jónasar eru birt í heild eða að hluta í samhengi við orð sem koma
fram í þeim (t.d. Ásta (31), Séra Tómas Sæmundsson (33–35), Fjallið
Skjaldbreiður (37–39) o.s.frv.). Orð sem fjallað er um hverju sinni eru
feitletruð og því auðvelt að átta sig á hvaða orð eru „Jónasarorð“.
Oft eru gildisdómar um einstök nýyrði Jónasar, t.d. „Orðið eldgler
er frekar gott orð, eitthvað spennandi við það.“ (bls. 141), „Sjónauki
er svo skemmtilegt orð og vel myndað að það getur vel falið í sér
tvær gagnstæðar merkingar.“ (bls. 143), „Það er eitthvað skáldlegt
við lýsingarorðið fjaðurmagnaður, það er einhver svífandi léttleiki
yfir því.“ (bls. 164). Vitaskuld má oft deila um slíkt mat en það gefur
textanum lit að fá að vita skoðun höfundar á fegurð og listfengi
mismunandi nýyrða.
Aftan við meginmál á blaðsíðum 183–199 er orðalisti þar sem eru
tilgreind meira en 1200 orð „sem öruggt eða nokkuð öruggt er að
birtast fyrst í skrifum Jónasar Hallgrímssonar“. Ef fjallað er um orð í
meginumfjöllun er vísað í hana með blaðsíðutali í listanum. Að lokum
eru tilgreindar heimildir sem notaðar voru við gerð bókarinnar. Bókin
er 207 blaðsíður á lengd. Framsetning efnis er aðgengileg og hún
tunga25.indb 170 08.06.2023 15:47:17