Orð og tunga - 2023, Blaðsíða 59
50 Orð og tunga
þegar orðabókin var tekin saman því hana er ekki að finna í 6. bindi
sem kom út 1924. Það er því afar ólíklegt að um dönsk áhrif geti
verið að ræða í sambandi við notkun og merkingu sagnarinnar í
íslensku, en eigi að síður er rétt að nefna þetta. Þess skal og getið að
í sænsku kemur fyrir sögnin focka frá lokum 19. aldar, með svipaða
merkingu, ‘avskeda, ge (ngn) respass, […] ge (ngn) sparken’, sjá
Svenska Akademiens ordbok.9 Orðabókin segir sögnina vera af óvissum
uppruna en orðsifjafræðingurinn Elof Hellquist (1980 [1939]:228–229)
virðist helst gera ráð fyrir sænskum (norrænum) uppruna þegar hann
nefnir í þessu samhengi, og þá einungis til samanburðar, norsku
fukka, dönsku fukke og ensku fuck sem og orðmyndir í sænsk um
og dönskum mállýskum. Hellquist gefur þar upp sænsku grunn
merkinguna ‘stöta’, þ.e. ísl. ‘slá’, „såsom ofta annars i verb för coire“,
þ.e. ‘eins og gjarnan á við um sagnir um að hafa samræði’. Sænsk
áhrif á notkun sagnarinnar í íslensku á 19. öld eru auðvitað óhugsandi
en athyglisvert er eigi að síður að orðið skuli vera til í sænsku í
ofangreindri merkingu. Ég hef spurst fyrir meðal Svía og allmargir
þekkja þessa merkingu enn í dag.10
2.2.2 Merkingin ‘gaufa, dunda’ o.s.frv.
Hið elsta af 16 dæmum um sögnina í merkingunni ‘gaufa, dunda’
í blöðum og tímaritum er frá 1948.11 Nafnorðið fokk í merkingunni
‘dund, slór, gagnslaust dútl’ o.s.frv. kemur þó fyrir í textum rúmum
áratug fyrr (sjá 2.3) og ef rétt er að nafnorðið sé dregið af sögninni,
eins og hér hefur verið haldið fram (sjá inngang og kafla 2.1) þá er
þessi merking sagnarinnar að minnsta kosti jafngömul og trúlega
eldri.
Ekki er vel ljóst hvernig þessi merking er til komin en einhvers
konar kæruleysisþáttur er þó sameiginlegur orðinu hér og hinu
kaldhæðnislega/kæruleysislega orðasambandi láta eð fokka o.s.frv.
sem rætt var hér að ofan.
Dæmið frá 1948 er í texta sem á að sýna slangur og spillt málfar
ungs fólks í Reykjavík (G.J.Á. 1948):
(6) knallið fór þó annars ágætlega, og við fokkuðum ekki á
búlunni lengur en til þrjú.
9 Flettuna er að finna í 8. bindi orðabókarinnar sem kom út 1925.
10 Sjá einnig athugasemd í lok kafla 3.2 hér á eftir um so. fukka/fokka í færeysku.
11 Stundum er merkingin nær því að vera ‘vasast í eu’ og ‘drepa tímann’ eða annað
því um líkt.
tunga25.indb 50 08.06.2023 15:47:15