Orð og tunga - 2023, Blaðsíða 161
152 Orð og tunga
annars konar bókmenntir eins og skáldsögur, innlendar og þýddar,
og ljóð. Hjá sumum nöfnum var lengi sneitt eins og t.d. nafninu Gróa
sem fékk neikvæðan blæ af persónunni Gróu á Leiti í leikriti Jóns
Thoroddsens Pilti og stúlku.
Á síðari árum má sjá að nöfn eru sótt í Biblíuna, barnabækur og
vinsælar kvikmyndir, einkum barnamyndir en breytingar á nafna
lögum 1996 hafa gert fólki kleift að velja erlendan rithátt sem áður
var óheimill.
3.1 Biblían
Fjölmörg nöfn, sem gefin voru síðasta aldarfjórðunginn, eiga rætur að
rekja til rita Biblíunnar (Guðrún Kvaran 2012). Að sjálfsögðu þarf að
hafa í huga þann fyrirvara að nöfn þurfa ekki að vera valin vegna þess
að þau koma fyrir í Biblíunni. Þau geta komið aðra leið inn í íslenskan
nafnaforða. Nöfnin hafa hugsanlega verið notuð í fjölskyldunni eða
verið valin vegna þess að þau þykja falleg. Nafnið Aron hefur t.d.
verið mjög vinsælt á Íslandi síðustu áratugi en væntanlega er ekki
öllum kunnugt um að Aron var eldri bróðir Móse og var útnefndur
fyrsti æðsti prestur Ísraelsmanna. Nafnið Aríel kemur fyrir í Biblíunni
en er meðal yngra fólks þekktara úr sögunni um Litlu hafmeyjuna
(Disneykvikmynd).
Spámannanöfnin Amos, Esekíel og Zakaría eru öll á mannanafnaskrá.
Zakaría er ritað Sakaría í Biblíunni, a.m.k. í yngri útgáfum. Nafn spá
mannsins Elía er einnig á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn en Elía
er þar einnig sem kvenmannsnafn og nafn spámannsins Sefanía fór á
mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn. Karlmannsnöfnin Abraham,
Ísrael, Gídeon, Rúben, Immanúel og Efraím og kvenmannsnöfnin Debóra
og Naomí eru þekkt nöfn úr Biblíunni sem fóru á mannanafnaskrá
síðasta aldarfjórðunginn. Nafn Rafaels erkiengils í Tóbítsbók, einni
apókrýfu bókanna, hefur verið samþykkt á skrána en dæmi um
minna þekkt Biblíunöfn eru Híram, Abel, Asael, Nikanor, Ísmael og
Mordekaí sem eru á mannanafnaskrá yfir eiginnöfn drengja og Atalía,
Júdea, Tamar, Tirsa og Súlamít yfir eiginnöfn stúlkna.
Þá eru ónefnd tvö karlmannsnöfn, sem ekki eru nefnd í Nýja testa
mentinu en tengjast óneitanlega fæðingu Jesú, en það eru vitringarnir
Kaspar og Melkíor. Nafn þriðja vitringsins, Baltasars, hefur verið notað
hér á landi frá síðari hluta 20. aldar og hefur náð miklum vinsældum
en áhrifin koma væntanlega úr annarri átt.
tunga25.indb 152 08.06.2023 15:47:17