Goðasteinn - 01.06.1985, Blaðsíða 44
Sigurður Vigfússon:
Sagnir um Flóðalabba
(Eftir ummælum undir Eyjafjöllum)
Svo er sagt frá uppruna Flóðalabba eða Flóðalalla, sem hann er
einnig nefndur, að bóndi einn bjó í Hvammi undir Eyjafjöllum fyrir
eða um miðja 17. öld, en eigi er getið nafns hans. Bóndi þessi fann
einhverju sinni dauðan mann sjórekinn og rændi hann fé sinu. Er
þess ei getið hvernig hann bjó við hinn dauða mann að öðru leyti
eða hvort hann sá honum fyrir greftri í vígðri mold. En skömmu
eftir þetta bar svo við í Hvammi að barið var að dyrum síðla um
kvöld, og gekk einhver heimamaður til dyra. Varð hann einskis vís
og gekk inn þegar aftur. Þá var þarið öðru sinni og gekk þá bóndi
út, en hann hefir ekki sést síðan. Þykjast menn af því vita að
draugurinn hafi banað honum og haft burt með sér. Tók nú að
gjörast allmikið vart við Labba og hafðist hann einkum við í
Pöstunum milli Hvamms og Núps austan við Hvammsnúp. Þar eru
flóð mikil og fen, og þar hafði Labbi bækistöð sína, og hlaut hann
af því nafnið sem nú var sagt.
Um þessar mundir lá Markarfljót í Fitarál austur með Fjöllum
og fyrir austan Hvamm, þar sem Hvammsnúpur gengur lengst
suður, liggur Állinn fast við bergið, en hinum megin við Álinn er
hóll sá er nefndur er Dysjarhóll. Þegar lítið vatn er í Álnum, má fara
fyrir framan Núpinn, milli hans og Álsins og þar liggur nú þjóð-
vegurinn. En þegar þessi saga gjörðist, var sú leið ófær, varð þá að
fara upp í túnið í Hvammi og austur um Núp fyrir neðan hamrabelti
þar sem neðst er i Núpnum, fyrir ofan Pöstin, og er þá brekka, brött
og há, fyrir austan og farin þar sniðgata tæp.
42
Goðasteinn