Goðasteinn - 01.06.1985, Blaðsíða 10
skráður húsráðandi næsta ár. Með honum eru í heimili faðir hans
og systir og vinnukona, Rannveig Jónsdóttir, fædd 18. mars 1842,
dóttir Jóns Tómassonar bónda á Uppsölum í Hvolhreppi og konu
hans Rannveigar Þorvaldsdóttur. Saman dró með Jóni og
Rannveigu og 1874 eru þau orðin hjón og 12. nóvember það ár
eignast þau dóttur sem skírð var Sesselja. Þau voru þá til heimilis
i Steinsholti í Reykjavíkursókn. Það er nokkuð ljóst að Jón hefur
á þessum árum einhverjar tekjur af því að skrifa ættartölur, sem
enn hittast á stöku stað hjá einstaklingum, auk þess sem hafnað
hefur í söfnum.
í ársbyrjun 1877 búa þau hjón á Bergi í Reykjavík og Rannveig
er kominn langt á leið að öðru barni sínu. Þá skeður það að Jón
leggur leið sína til Hafnarfjarðar og verður ekki séð hvort það er
15. eða 17. janúar. Kaldur vetur var á. Þeim einum sögum fer af
f'erðinni, að Jón skilar sér hvergi til húsa að kvöldi. Bylur hefur
hulið spor lians og leg örmagna, fótlama ferðamanns. Vafalaust
hefur leit verið gerð en án árangurs.
Matthías Jochumsson skáld greinir frá ævilokum fræði-
mannsins frá Steinum í Þjóðólfi: ,,15. janúar varð maður úti í
útsynningshríð hér á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Hann
hét Jón Sigurðsson (frá Rauðará), fátækur maður en furðu lesinn
og fróður.” Ekki fer á milli mála um það að Matthías skáld hefur
komist í færi við fróðleik Jóns og án fræðaiðjunnar myndi nú að
fullu fennt í spor ferðamannsins.
Jón Borgfirðingur hélt dagbækur um tugi ára, nú varðveittar í
Landsbókasafni. I yfirliti janúarmánaðar 1877 skrifar hann: ,,í út-
synningshríð varð úti þann 17. Jón Jónsson (svo) skammt frá
Kópavogslæk. Hann bjó í tómthúsi í Reykjavík, ungur að aldri,
ættaður fráSteinum undir Eyjafjöllum, bókfróður, hagmæltur og
lagði stund á ættfræði.” (ÍB. 545, 8vo).
Tíminn líður. Ekkjan, Rannveig á Bergi, eignast son 20. febrúar
og beint liggur við að gefa honum nafn föðurins, sem liggur nár
undir fönn. Innan tíðar leysir svo snjóinn af líki Jóns Sigurðssonar.
Prestsþjónustubók Reykjavíkur greinir við 15. mars, að grafinn
sé Jón Sigurðsson, giftur húsmaður á Bergi. ,,Varð úti milli
Reykjavíkur og Hafnafjarðar. Fannst nálægt Kópavogslæk.”
Goðasteinn