Goðasteinn - 01.06.1985, Blaðsíða 57
Guðjón Jónsson í Hlíð:
Um bindindismál
Ég ætla mér ekki að halda hér langan bindindisfyrirlestur, því
hvorki leyfa það hæfileikar mínir né tíminn. Ætla ég því aðeins
stuttlega að víkja máli mínu að áfengisnautninni af minni eigin
reynslu, en mun sleppa því að taka dæmi af öðrum og ber þar tvennt
til, fyrst það, að mér þykir það ekki eiga rétt vel við og annað það,
að ég býst ekki við að ég fengi neitt sérstakt þakklæti fyrir það, að
kveða hér upp dóm yfir öðrum. Bæði getur skeð, að mér skeiki þar
eitthvað í frásögninni og lái ég það engum þó að hann hafi opið eyra
fyrir slíku. En til þess að stýra nú hjá því skeri, skal ég einungis segja
af sjálfum mér við hlið Bakkusar, því þá þarf ég ekki að óttast að
mér verði á að segja ofmikið þar um. Vel ég þar til mína fyrstu
drykkjusögu með dálitlum formála og eftirmála. Heyrið nú til!
Þegar ég var svolítill strákhnokki kom það oft fyrir að ég sá
drukkinn mann eða konu. Kom mér þá einatt til hugar með sjálfum
mér, að svona skyldi ég bara hafa það þegar svolitið tognaði úr mér,
þá skyldi ég rolla svaðalegustu rímnaerindi svo hátt sem ég
mögulega gæti, þá skyldi ég steyta hnefana og hrista höfuðið
framan í náungann og mana hann til hvers hann vildi. Ég hugsaði
nefnilega, að ef ég drykki mig fullan, þá gilti einu hvernig — mig
Iangar að segja — í helvítinu ég hamaðist.
Þessi hugsun, sem ég hér eftir nefni Illfýsni, sagði mér að með
þessu kæmist ég sem næst mætti verða, hinum fornu hetjum og
bardagamönnum.
Goðasteinn
55