Goðasteinn - 01.06.1985, Blaðsíða 101
smíðar hér og þar, svo að það var ekki fyrr en sumarið eftir sem allt
var tilbúið. Þá fór hann með efnið á uxakerru niður til Sandvíkur
til að setja girðinguna upp. Skammt frá gamla kirkjugarðinum hitti
hann bónda að máli, sem stundaði netaveiðar í vatninu. Spurði
hann þá mann þennan, hvort hann gæti ekki selt sér dálítið af fiski,
sem hann gæti tekið með sér heim að verki loknu. Bóndinn svaraði
því til að þá væri slík öreyða í vatninu, að varla fengist branda í
soðið, hvað þá til sölu.
En hvað sern því leið, þá fór Trausti út í kirkjugarðinn, fann
legsteininn og hófst handa við verkið. Það tók lengri tíma en hann
hafði haldið og var ekki lokið, þegar dimma tók að kvöldi. Hann
fór því heim til bóndans, sem hann hafði spurt um fiskinn, og fékk
þar gistingu. Næsta morgun tók hann daginn snemma og lauk við
að setja upp girðinguna kringum leiðið. Þegar verkinu var lokið og
hann var að leggja af stað heim, kom bóndinn sem hafði hýst hann.
Hann hafði líka risið snemma úr rekkju og farið út á vatn til að vitja
um net sín. Þá hafði brugðið svo undarlega við að allt var fullt af
fiski. Kom hann nú og gaf Trausta tvo poka fulla af fiski til að flytja
á kerrunni heim með sér. „Eitt gott verk kallar á annaðý sagði hann
við Trausta, sem hafði verið að ljúka við góðverk fyrir John
Ramsey. Trausti sneri því glaður heim með þessa góðu matbjörg.
Hann var sannfærður um að fiskurinn var kaup hans fyrir viðvikið
og að einhver óséður hefði haft hönd í bagga um aflabrögð bóndans
þennan morgun.
Goðasteinn
99