Goðasteinn - 01.06.1985, Blaðsíða 86
skoða okkur um i byggðinni og hittum þá einnig bræður Páls, þá
Leif, Kára og Þorstein sem og systurnar Halldóru og Ólafíu.
Reyndist þetta fólk allt saman bráðskemmtilegt og vinsamlegt með
afbrigðum. Einnig talaði það ágæta íslensku, svo að þetta var
næstum eins og að vera kominn heim. Páll Pálsson gerði það heldur
ekki endasleppt við okkur, því að brátt fengum við orðsendingu um
að koma til þeirra hjóna í síðdegiskaffi.
Þegar við komum í kaffiboðið, var þar saman kominn fjöldi
ættingja og vina Páls og upphófst þar brátt mikill gleðskapur. Vín
var borið með kaffinu og þótti mér merkilegt að sjá, hvernig sumir
helltu útí kaffið sitt eins og ég hafði séð fólk gera heima, þegar ég
var á barnsaldri. í veislufagnaði þessum var mikið skrafað og
sagðar sögur og einnig tóku menn brátt að syngja. Þá voru ljóð og
lög ekki af verri endanum og söngvar eins og Erla, góða Erla, Ólaf-
ur reið með björgum fram, Þú sæla heimsins svala lind, Nú blika við
sólarlag, Komdu og skoðaðu í kistuna mína, Fyrr var oft í koti kátt
og fleira af skyldum toga, hljómuðu í víðáttuna þarna á bökkum
Manitobavatns inni á miðjum sléttum Norður-Ameríku. Þetta var
sem sagt góð og glaðvær stund og gestrisni og vinsemd eins og best
varð á kosið.
Minnisstæð ferð til Mikleyjar
Guðmundur Albertsson kom á bíl sínum eldsnemma morgun
einn og bauð okkur með sér í kynnisferð til fornar íslendinga-
byggðar úti í Mikley í Winnipegvatni. Sagði hann að ekkert vit væri
í því fyrir okkur að vera sífellt að heimsækja skóla, ræða um
námsefni við kennara og kynna okkur vandamál í uppeldis- og
kennslumálum, því að við hefðum sennilega nóg af þeim heima. Nú
skyldum við heldur koma með sér í langferð og því veitti okkur ekki
af að taka daginn snemma. Við tókum þessum boðskap með gleði
og vorum manninum alveg sammála. Ókum við brátt af stað frá
Winnipeg og héldum sem Ieið Iiggur norður með Rauðá til Selkirk.
Þar nam leiðsögumaður okkar staðar hjá fallegu einbýlishúsi og
bankaði upp á. Andartaki síðar snaraðist þar út vörpulegur maður
sem reyndist vera fræðslustjóri þar i borginni. Kvaðst hann heita
Þorleifur Halldórsson en vera kallaður Ken í daglegu tali á vinnu-
84
Goðasteinn