Víðförli - 01.12.1952, Page 47
ALBERT SCHWEITZER
109
miklu nær kristinni trúarafstöðu, eins og hún hefur lengst verið
og rist dýpst, heldur en sú guðfræðistefna, sem ríkjandi var um
aldamót.
Og Schweitzer segir þá líka, að reynsla sín og margra annarra
hafi orðið sú, að þegar þessi óvilhalla sögurannsókn hafði skafið
brott farðann af mynd Jesú, hafi þeim veizt sýnu auðveldara að
prédika en áður. Jesús talar til vor frá öðrum hugarheimi, úr
annarlegum fjarska framandlegra hugmynda. En hann er miklu
áhrifameiri í sínum rétta búningi en þegar vér mætum honum í
flíkum kennisetninga- og tímabundinna vísinda. I kennisetning-
unum hefur persónuleiki hans glatað mætti sínum, vísindin höfðu
gert hann nýtízkan og smærri en hann er.
Þegar Schweitzer bjó sig undir doktorspróf í læknisfræði valdi
hann sér að ritgerðarefni þær'tilraunir, sem nokkrir læknar höfðu
gert til þess að sýna fram á, að Jesús hafi ekki verið heill á geðs-
munum. I þessari ritgerð sinni sýnir hann fram á haldleysi hinna
sálfræðilegu röksemda fyrir slíkum kenningum og vanþekkingu
höfundanna á sögulegum staðreyndum.
V.
Fræðimaðurinn Albert Schweitzer hefur unnið merkilegt verk
og haft ótvíræð áhrif. En hann er svo sérstæður maður og lífs-
verk hans í heild svo margþætt og merkilegt, að orðstír hans sök-
um lærdóms og frumlegra athugana í guðfræði verður ekki einn
um það og ekki aðallega til þess að halda nafni hans á lofti í
framtíðinni. Hann varð til þess að leiða í ljós athyglisverðar stað-
reyndir um líf Jesú frá Nazaret. En framtíðin mun fyrst og fremst
minnast hans sem eins þeirra manna, sem dýpst hafa orðið höndl-
aðir af Kristi.
í bók, sem hann skrifaði fyrir röskum 20 árum um ævi sína
og lífsskoðun, farast honum orð á þessa leið: „Er ég svartsýnn
eða bjartsýnn? Því svara ég svo, að þekking mín geri mig svart-
sýnan en vilji minn og vonir bjartsýnan. Svartsýnn er ég af
því, að ég skynja til botns það, sem út frá vorum hugtökum