Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Side 21
Bjarki Þór Grönfeldt og Vífill Karlsson
21 ..
spurðir út í áhrif sameininga í könnuninni heldur eingöngu hversu góð þjónustan væri í viðkomandi
sveitarfélagi. Síðan voru sambærileg samfélög borin saman að öðru leyti en því að annar hópurinn
var ósameinað dreifbýlissamfélag en hinn sameinað dreifbýlissamfélag. Einnig má telja að fræði-
lega séð hafi aldrei áður verið leitað vísbendinga um gæði á þjónustu svo fámennra sveitarfélaga eins
og hér og sveitarfélaga sem eru hrein dreifbýlissveitarfélög. Annar styrkleiki þessarar rannsóknar er
að hún byggir bæði á aðhvarfsgreiningu og tveimur stikalausum prófum (Mann-Whitney og t-prófi)
til hliðsjónar. Helstu veikleika rannsóknarinnar má rekja til gagnasafnsins (þrátt fyrir að það sé
stórt). Gott hefði verið ef fengist hefði tilviljunarkennt úrtak af höfuðborgarsvæðinu, en það kemur
þó ekki að sök í þessari rannsókn þar sem fáir koma þaðan inn í þessa úrvinnslu (sbr. Kjósarhreppur,
dreifbýli í Mosfellsbæ o.s.frv.). Unga fólkið hefði mátt vera hærra hlutfall þátttakenda. Það kemur
heldur ekki illa niður á þessari rannsókn þar sem íbúar í sveitum eru almennt eldri en þeir sem búa á
þéttbýli. Þá voru ekki allir landshlutar með árin 2016 og 2017.
Frekari rannsóknir þurfa að fara fram á afleiðingum sameininga fyrir íbúa í dreifbýli. Nú stendur
yfir nokkurs konar átak í sameiningum sveitarfélaga út um land allt og fleiri blönduð sveitarfélög
verða til. Mikilvægt er að sveitarfélög, landshlutasamtök og ráðuneyti sveitarstjórnarmála kanni
árangur af sameiningum og fylgist vel með þróuninni. Rannsakendur ættu að endurtaka sambærilega
rannsókn að einhverjum tíma liðnum. Sérstaklega áhugavert væri að greina íbúaþróun í dreifbýli
eftir því hvort um sé að ræða hrein dreifbýlissveitarfélög eða blönduð. Það myndi taka niðurstöð-
urnar sem kynntar voru hér á annað stig ef í ljós kæmi að blönduð sveitarfélög héldu betur í sína
íbúa—og löðuðu jafnvel að sér nýja.
Niðurlag
Nýlegar niðurstöður rannsóknar á ábata sameininga sveitarfélaga sem ekki náði til þeirra allra fá-
mennustu (Vífill Karlsson og Grétar Þór Eyþórsson, 2022) varð einn af helstu hvötum þessarar
rannsóknar. Þar komu fram vísbendingar um að sameiningar þriggja eða fleiri sveitarfélaga væru
líklegar til árangurs í formi samfélagslegs ábata innan viðkomandi sveitarfélaga en að árangur sam-
eininga tveggja sveitarfélaga væri síðri þó að vissulega væri þar von líka. Núverandi rannsókn gefur
til kynna að almennt virðast dreifbýlissamfélög geta komið betur út sameinuð stærri þjónustukjarna
heldur en að reyna standa á eigin fótum í hreinu dreifbýlissveitarfélagi, ef marka má reynslu annarra
dreifbýlissamfélaga af slíku sambýli. Það sést á því að íbúar í blönduðum sveitarfélögum eru ánægð-
ari en íbúar hreinna dreifbýlissveitarfélaga með að minnsta kosti sjö þætti af þeim 13 sem voru til
skoðunar. Ef sveitarfélög vilja samt reyna að standa á eigin fótum þá virðist allt mæla með því að
þau kaupi skólaþjónustu af öðru sveitarfélagi ef kostur er, jafnvel þó þau falli undir skilgreininguna
um sértekjusveitarfélög. Athygli vekur að vísbendingar komu fram um að óánægja væri meiri með
þjónustu hreinna dreifbýlissveitarfélaga sem reka sína eigin skóla en þeirra sem gera það ekki.
Niðurstöðurnar sem kynntar hafa verið hér benda eindregið til þess að sameiningar dreifbýlis- og
þéttbýlissveitarfélaga skili árangri fyrir dreifbýlið. Þó niðurstöðurnar séu tilefni til bjartsýni, enda
er það stefna stjórnvalda að fækka sveitarfélögum, þá skildi í upphafi endinn skoða. Lögþvingaðar
sameiningar hafa gefið misjafna raun erlendis. Í Þýskalandi hafa þær skilað sparnaði í rekstri (Blesse
og Baskaran, 2013) en vísbendingar eru um að lögþvingun hafi skemmt fyrir árangri af þeim í öðrum
löndum (sjá t.d. dæmi frá Ástralíu: Drew o.fl., 2022; Svíþjóð: Hinnerich, 2009; og Japan: Nakazawa
og Miyashita, 2013). Á Íslandi er sterk hefð fyrir sjálfsákvörðunarrétti íbúa í sameiningarmálum og
ákvörðunartaka verður því að fara fram í opnu og lýðræðislegu ferli sem endar með kosningu allra
íbúa. Í aðdraganda slíkra kosninga hér á landi er því mikilvægt að niðurstöður rannsókna sem þess-
arar verði kynntar íbúum hreinna dreifbýlissveitarfélaga til þess að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun
um sameiningu. Dráttur á sameiningum virðist vera til þess fallinn að grafa undan gæðum þeirrar
þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum og hafa greitt fyrir með sköttum sínum. Þjónusta sem
er mjög mikilvæg börnum þeirra en ekki síður þjónusta viðkvæmra hópa samfélagsins, eins og eldri
íbúa þar sem fólk getur verið veikt fyrir og mikilvægt að hlúð sé vel að hverjum og einum.