Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Qupperneq 28
Sjálfboðastarf í Brothættum byggðum
28 ..
Gera verður skýran greinarmun á ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi
annars vegar og ólaunaðri samfélagslegri vinnu (sjálfboðavinnu) hins vegar.
Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjón-
ustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnu-
starfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst
hvorki kjarasamninga né lög. Dæmi um efnahagslega starfsemi þar sem gjarnan
finnst fólk í ólaunaðri vinnu skv. athugun ASÍ er fyrst og fremst við ýmiss konar
ferðaþjónustu, nánar tiltekið vinnu á kaffi- og veitingahúsum, á gistiheimilum
og hótelum, hestaleigum og við hellaskoðanir auk ýmiskonar blandaðra starfa á
sveitabýlum og/eða við bændagistingu (ASI, e.d.).
ASI ítrekar að ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi þýði að atvinnurekendur sem nota hana
hagnist á kostnað samneyslunnar og skapi sér samkeppnisforskot á markaði. Auk þess njóti ein-
staklingar sem eru í ólaunaðri vinnu ekki tryggingaverndar. Einarsdóttir og Rafnsdóttir (2020) benda
á að skert samneysla og ósanngjarnt samkeppnisforskot geti haft þýðingu fyrir jaðarbyggðir en flest
störf erlendra sjálfboðaliða eru einmitt í dreifbýli. Ekki er þó samkomulag um hvað teljist réttmætt
sjálfboðastarf, sem veldur óryggi, einkum þeirra sem hafa áhuga á að ráða til sín sjálfboðaliða. Í
yfirlýsingu frá Bændasamtökum Íslands og Starfsgreinasambandsinu árið 2017 er áréttað mikilvægi
þess að sjálfboðaliðar gangi ekki í launuð störf en einnig er bent á að í landbúnaði sé löng hefð fyrir
„vinnuframlagi vina og ættingja í mjög skamman tíma t.d. í göngum og réttum. Ekki eru gerðar
athugasemdir við þau störf sjálfboðaliða enda byggi þau á langri venju og sátt hefur verið um“
(Bændablaðið 2017, 28.febrúar).
Hagnýt þekking rannsóknarinnar felst því í að skilja hvaða áhrif sjálfboðastörf geti haft á samfélög
jaðarbyggða, en skv. skýrslunni „Byggðafesta og búferlaflutningar“ geta sjálfboðastörf verið ástæða
flutninga úr dreifbýlinu (Byggðastofnun, 2021). Hvaða þýðingu hefur það fyrir Brothættar byggðir,
sem einkennast af atvinnuleysi heimafólks, en jafnframt árstíðabundnum skorti á vinnuafli, að sjálf-
boðaliðar sinni þar störfum sem eru ekki launuð? Þannig veltum við fyrir okkur hvort sjálfboðaliðar
styðji við jaðarbyggðir og taki þátt í verkefnum sem hefðu annars ekki verið framkvæmd, eða vinni
gegn „heilbrigðari“ atvinnuuppbyggingu sem fer eftir reglum um kaup og kjör. Hér er áherslan á
sjónarhorn heimafólks. Við höfum fjallað um hugmyndir og reynslu erlendu sjálfboðaliðanna annars
staðar (Rafnsdóttir o.fl., 2020).
Staða þekkingar
Nokkuð hefur verið fjallað um áhrif erlendra sjálfboðaliða á nærsamfélög í fátækum löndum og
oft bent á að sjálfboðaliðarnir hagnist mest, enda fá þeir uppfylltar eigin langanir í nýja lífsreynslu
(Baumgarten, 2022; Wright, 2013). Oftast er um að ræða sjálfboðaferðamennsku (e. voluntoursim)
en sú tegund ferðamennsku hefur aukist hvað hraðast í heiminum, þar sem ungt fólk ferðast og sér
fyrir sér með sjálfboðavinnu gegn fríu fæði og húsnæði (Baumgarten, 2022). Þetta er einnig tilfellið á
Íslandi. Erlend ungmenni sem koma til landsins sem sjálfboðaliðar virðast almennt líta á slíka vinnu
sem ódýra og spennandi leið til að ferðast til landsins. Þau vinna margvísleg störf, að mestu ófag-
lærð, en sem falla að jafnaði undir efnahagslega starfsemi. Stærsti hluti starfanna fer fram í dreifbýli
(Rafnsdóttir o.fl., 2020; Guðbjörg Linda Rafnsdóttir o.fl., 2019). Ýmsar ástæður geta verið fyrir
þessari þróun, svo sem aukið atvinnuleysi meðal ungs fólks í Evrópu (Powell, 2018; Rancew-Sikora
og Skaptadóttir, 2016), aukin eftirspurn eftir sveigjanlegu vinnuafli (Deery og Jago, 2002) samhliða
frelsisþrá ungs fólks og löngun þess til að kynnast nýjum stöðum og lifnaðarháttum (Dlaske, 2016;
Lyons o.fl., 2012; McGloin og Georgeou, 2016; Wearing og McGehee, 2013). Mikilvægt er þó að
hafa í huga að sjálfboðaliðar eru ekki eingöngu erlendir sjálfboðaferðamenn sem flakka um heiminn,
heldur einnig heimafólk sem sinnir sjálfboðavinnu í sinni eigin heimabyggð, ýmist fyrst og fremst
sér til ánægju eða af skyldurækni.