Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Qupperneq 30
Sjálfboðastarf í Brothættum byggðum
30 ..
takt við aukna alþjóðavæðingu vinnunnar (Stuth og Jahn, 2019), veikingar verkalýðshreyfingarinnar
(Refslund, 2012) og svokallaðs deilihagkerfis, þar sem störf eru auglýst á deilisíðum á borð við
„HelpX“ og „Workaway“. Samtímis hefur sífellt meiri áhersla verið lögð á aukinn sveigjanleika
í fyrirtækjarekstri, ásamt samþjöppun fjármagns og fyrirtækja (Refslund, 2012; Skedinger, 2009).
Afleiðingin er sú að fyrirtæki ráða í auknum mæli til sín starfsfólk sem fær greitt langt undir um-
sömdum lágmarkslaunum. Þetta á m.a. við um lítt eða ekki launaða starfsnema og sjálfboðaliða
(ASÍ, e.d.; Unnur Dís Skaptadóttir og Anna Wojtynska, 2019).
Aðferðir og gögn
Flest viðtölin voru tekin í september 2022 þegar þau fjögur byggðarlög sem völdust til þátttöku
í rannsókninni voru heimsótt, en öll hafa þau tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir. Nokkur
viðtöl voru tekin í október 2022 og apríl–maí 2023 við fulltrúa byggðakjarnanna sem ekki náðist
í á staðnum, sem og við fulltrúa Vinnueftirlitsins og verkalýðshreyfingarinnar. Alls voru þetta um
30 viðtöl. Viðmælendur voru einstaklingar sem voru virkir í sjálfboðastarfi, höfðu þekkingu á við-
fangsefninu eða höfðu ráðið til sín sjálfboðaliða í vinnu. Viðtölin voru ýmist hljóðrituð eða skráð en
þau voru á bilinu 30-120 mínútur að lengd. Stuðst var við aðlagaða grundaða kenningu (e. grounded
theory) að hætti Crang og Cook (2007, bls. 134–146). Gert er ráð fyrir að gögnin helgist að miklu
leyti af rannsóknarspurningum, en geti samtímis falið í sér áhugaverðar niðurstöður sem falli í fljótu
bragði ekki beint undir þær. Gögnin voru lesin vandlega áður en þau voru greind með opinni kóðuð
í Atlas.ti, sem flokkar samtímis viðeigandi texta undir þemun. Hafa ber í huga að hluti textans getur
fallið undir fleiri en einn kóða. Viðeigandi texti hvers þema er svo endurflokkaður og tengd þemu
sameinuð undir yfirþema. Þemu sem spanna umfangsmikinn texta eru endurkóðuð. Þess var gætt að
halda ávallt til haga hver sagði hvað og í hvaða samhengi.
Viðtöl við fulltrúa verkalýðsfélaga, sem hafa ekki aðsetur í viðkomandi byggðarlögum, sýna að
það er ekki auðvelt að afla upplýsinga um brot gegn einstaka sjálfboðaliðum og tilkynningar um að
sjálfboðaliðar hafi gengið í störf launafólks. Slíkar upplýsingar virðast ekki vera skráðar miðlægt
með samræmdum hætti. Við fengum þó upplýsingar um að ein ábending hefði borist um sjálfboða-
liða sem gekk í störf launafólks í þeim byggðum sem við heimsóttum.
Auk viðtalanna hafa höfundar greint heimasíður Workaway og HelpX á árunum 2017–2023, þar
sem auglýst er eftir sjálfboðaliðum til Íslands. Einungis verður að litlu leyti fjallað um þá greiningu
hér. Fleiri samtök augslýsa eftir sjálfboðaliðum, auk þess sem upplýsingar um sjálfboðastörf í boði
er að finna á sjálfsprottnum síðum á samfélagsmiðlum. Þá fer ráðning sjálfboðaliða einnig fram í
gegnum fyrri sjálfboðaliða, vina og fjölskyldutengsl.
Niðurstöður
Niðurstöðurnar leitast við að lýsa viðhorfum heimafólks í þeim byggðarlögum sem voru heimsótt,
reynslu þeirra og hugmyndum um sjálfboðavinnu, hvort heldur hún er unnin af erlendum sjálfboða-
liðum eða heimafólki. Fyrst gerum við grein fyrir ástæðum þess að heimafólk ræður til sín erlendra
sjálfboðaliða, hugmyndum þess um ásetning sjálfboðaliðanna og reynslu þeirra. Þá fjöllum við um
ástæður og reynslu heimafólks af því að taka þátt í sjálfboðastarfi í heimabyggð. Í kynningu á hug-
myndum heimafólks um réttmæti sjálfboðavinnu er tekið mið af gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar
á störf erlenda sjálfboðaliða, en umræðan nær einnig til sjálfboðavinnu heimafólks. Loks eru tveir
undirkaflar sem fjalla um mögulegt arðrán, mikilvægi sjálfboðavinnunar og áhrif hennar á afkomu
byggðanna sem voru heimsóttar.
Erlendir sjálfboðaliðar
Helstu ástæður þess að viðmælendur auglýstu eftir erlendum sjálfboðaliðum voru mikið vinnuálag,
forvitni og skortur á félagsskap. Bóndi gaf eftirfarandi svar: „Ég sá bara að ég komst ekki yfir
verkefnin ... lífið var heldur snúið og var að fara inn í smalamennskutímabilið.“ Niðurstaðan var