Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Síða 34
Sjálfboðastarf í Brothættum byggðum
34 ..
Landbúnaður og heimilisstörf
Þeir viðmælendur sem eru ekki bændur skiptust í tvo hópa þegar spurt var hvort það væri í lagi að
bændur hefðu sjálfboðaliða. Annar hópurinn var tvístígandi og hafði fyrirvara. „En já, ungt fólk ætti
að hafa kost á að vinna við þetta ef því langar. Tvístigandi þó“, svaraði viðmælandi sem þekkti vel
til stöðu landbúnaðar. „Mér finnst ekki rétt að vinna lengi í sveit kauplaust, kannski fjórar vikur, en
ekki moka skít endalaust“, sagði annar. Sá þriðji var hikandi: „Já, verkalýðshreyfingin hefur rétt að
vissu leyti, en hafa líka farið offorsi. Það er munur að vinna á gistiheimili eða í dútli með bónda 4–5
tíma á dag og oft ekkert, og færð bílinn lánaðan [nefnir dæmi um slíkt]. Þarf þó að passa upp á þetta.
Ég er beggja blands.“ Nokkrir svöruðu afgerandi að þeim fyndist það ekki brot á kjarasamningum að
bændur hefðu sjálfboðaliða. Einn viðmælandi sagði: „Fólk getur kannski verið í þessu og finnst það
í lagi til að ferðast“, og bætti við: „Hjá sumum er þetta kannski lífsstíll, held ekki sé hægt að banna
þeim að vinna launalaust.“
Margir viðmælenda töluðu um heimilisaðstoð og landbúnaðarstörf eins og vinnu sem falli utan
almenns vinnumarkaðar: „Gleymist að bændur reka fyrirtæki ... allir sem eitthvað vita segja að
sauðfjárbúskapur borgi sig ekki nema hafa þúsund kindur.“ Fjárhagsstaða sauðfjárbúa væri erfið.
Augljóst væri að það verða ekki til ný störf þótt bændur hafi ekki sjálfboðaliða. Einn bóndi ítrekaði:
„Þetta er lífstíll ... hef ekki einu sinni laun fyrir sjálfa mig.“ Bóndinn sagðist alltaf upplýsa sjálfboða-
liðana um að „það verða langir dagar en svo fáið þið frí á móti, að ég lánaði þeim bílinn og kæmi
þeim í tengsl við fólk hringinn í kringum landið. ... Ég er viljug til að gera ýmislegt fyrir fólk sem er
viljugt að hjálpa mér.“ Þessi bóndi þarf ekki að auglýsa lengur eftir sjálfboðaliðum, því það er alltaf
einhver þeirra sem vill koma aftur.
Fyrrverandi bóndi taldi samhjálp bænda viðgangast ennþá, „en fólk er svo fátt í sveitunum. Fjöl-
skylda og vinir eiga erfitt með að vera í burtu frá vinnu í lengri tíma, eða hafa fjarlægst búskapinn og
það eru fá börn í sveit nú til dags.“ Fækkun sauðfjárbúa getur aukið vinnuálag þeirra sem eftir eru
eins og einn bóndinn benti á: „[Það] þarf að smala sama svæði og áður þótt nágranninn bregði búi.“
Sumir bentu á að sjálfboðaliðarnir ynnu óbeint gegn fólksfækkun til sveita á tímum þegar fólks-
fækkun væri mikil og skortur á vinnuafli á álagstímum.
Auglýsingum eftir sjálfboðaliðum til Íslands hefur fækkað á undanförnum árum. Ætla má að það
sé vegna ásakana um að það sé launaþjófnaður af hafa sjálfboðaliða í efnahgslegri starfsemi. Við-
mælandi sem hjálpaði vini sínum að auglýsa eftir sjálfboðaliða sagði: „Ég ráðlagði honum að biðja
bara um aðstoð við heimilishald, ekki landbúnaðinn, vegna umræðunnar um launaþjófnað.“ Þessi
ábending passar við niðurstöður greininga höfunda á auglýsingum frá HelpX og Workaway, sem
sýnir fækkun í beiðnum um vinnu við sveitastörf og fjölgun eftir aðstoð við barnapössun, en al-
gengast er að beðið sé um aðstoð við heimilisstörf. Einnig eru dæmi um að bændur taki fram í aug-
lýsingunum að ekki sé beðið um aðstoð við búskapinn, bara heimilishald og barnapössun.
Arðrán, gagnkvæmur greiði og samhjálp
Viðmælendum var tíðrætt um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til erlendra sjálfboðaliða og þótti
hún á köflum harkaleg. Þótt reynslan af sjálfboðaliðum væri almennt góð, þá væri fólk hikandi að
auglýsa eftir þeim vegna umræðunnar. Einn viðmælandi setti auglýsingu á Workaway, „langaði að
prufa“, en það liðu ekki margir dagar „og komið bréf frá ASÍ.“ Viðmælandi lét kyrrt liggja, „vildi
ekki gera neitt óþægilegt.“ Verkalýðshreyfingin vaktar samkvæmt þessu tilteknar sjálfboðaliðasíður
og bendir auglýsendum á að um viðkomandi störf gildi kjarasamningar.
Þegar spurt var hvort erlendir sjálfboðaliðar væru arðrændir útilokuðu tveir viðmælendur, báðir
tengdir verkalýðsmálum, það ekki. Báðir höfðu þó mestar áhyggjur af aðbúnaði erlends verkafólks
í byggðinni, en það væri ráðið til skamms tíma í gegnum starfsmannaleigur og óvíst hvort kjör þess
stæðust kjarasamninga. Viðmælandi sem rekur fyrirtæki svaraði að það væru svartir sauðir í öllum
atvinnuvegum. Annar sagði: „Ég ætla ekki að segja að aldrei sé arðrán“, það væri fólk sem hefði hætt