Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Page 35
Jónína Einarsdóttir og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir
35 ..
að taka sjálfboðaliða vegna ásakanna: „Skil að menn séu hikandi, umræðan var eins og bændur væru
í þrælahaldi.“ Sumir bentu á að setja þyrfti skýrari ramma um sjálfboðaliða, vinnutíma og lengd
tímabils, en „það er alltaf einhver sem misnotar stöðuna.“
Viðmælandi taldi að þar sem ekki væri skrifað undir samning gætu sjálfboðaliðar „labbað út þegar
þeir vilja.“ Hjá honum hafði enginn farið en sumir hefðu beðið um framlengingu og aðrir komið
aftur. Annar viðmælandi ítrekaði það sama og lagði áherslu á viðvarandi vinskap milli heimilis-
fólks og sjálfboðaliða. Dæmi voru um að fjölskyldan hafi heimsótt fjölskyldu sjálfboðaliðans, m.a.
í brúðkaupsferð. Eins kom fyrir að sjálfboðaliðar kæmu í heimsókn ásamt fjölskyldu, jafnvel í bón-
orðsferð. Viðmælendi undirstrikaði að „þessir krakkar eru reyndar ekki bara krakkar ... þau mynda
heilt samfélag, hitta hina sjálfboðaliðana.“ Sjálfboðaliðarnir bæru saman aðstæður sínar og redduðu
nýjum stað þegar þau væru ósátt . Viðkomandi hafði tekið til sín tvo sjálfboðaliða sem voru ósáttir
við dvöl sína hjá öðrum og nefndi að „sú fyrsta [sem kom til hennar] flúði reyndar hótelvinnu.“
Þegar spurt var hvort sjálfboðaliðar væru arðrændir svaraði einn viðmælenda: „Þetta er ekki það
sem þau [sjálfboðaliðarnir] segja mér, þetta er ódýrasta leiðin til að ferðast um heiminn.“ Hann
sagðist meðvitaður um að „þetta er misnotað eins og annað“ og nefndi langar vaktir á hótelum: „Já,
þau eru flest matvinnungar og sum eru hörkudugleg. Þau koma til að læra og ekki hægt að ætlast
til að þau kunni allt. ... Myndi aldrei borga, hef ekki efni á því en ef ég borgaði myndi ég ætlast til
meiri vinnu.“ Viðmælandinn ítrekaði: „Ég geri margt með sjálfboðaliðunum, fer í leikhús og ferðir
og fleira, er ekki bara vinna. Það er gaman“. Viðmælandi, sem hafði tekið nokkra erlenda sjálfboða-
liða, sagði að það ætti ekki að leggja „þetta upp sem reiknisdæmi. Þú kynnist þeim, þau þér og þú
græðir alltaf en kannski ekki peninga, mátt ekki hafa þær væntingar.“ Það fylgdi vissulega kostnaður
að hafa sjálfboðaliða, fæði, húsnæði og afþreying, viðkomandi hefði lánað bíla og tveir þeirra höfðu
bilað í höndum sjálfboðaliða.
Nokkrir viðmælendur kvörtuðu undan því að það mætti ekki hjálpa lengur, allt gengi kaupum og
sölum, líka vinnan. Við lifðum í kapitalísku hagkerfi þar sem aðeins væri leyfilegt að borga með
pening – ekki gagnkvæmum greiða, mat, húsnæði, ferðalögum, eða öðru: „Nú er bann lagt á hjálp-
semi. Sorgleg þróun fyrir hjálpfúst fólk.“
Afkoma byggðarinnar og sjálfboðavinna
Það er almenn samstaða um að íbúafundir vegna þátttöku í verkefninu Brothættar byggðir hefðu
verið góðir. Fyrsta hugsunin hefði þó verið: „Á nú að finna eitthvað nýtt og sniðugt fyrir okkur.“
Þátttakan var almenn og einkenndist af samheldni og mikilvægri hugmyndavinnu. Þó varð minna
úr framkvæmdum en áform voru um að mati viðmælenda, en þó sett af stað áhugaverð verkefni.
Sum ganga vel en önnur ekki. Gagnrýnt var að of lítill peningur hefði verið ætlaður til verkefnisins
og til of skamms tíma, og að útgerðir fengju kvóta en ekki smábátarnir. Bent var á að nemendum
fækkaði jafnvel þar sem íbúafjöldinn hefði aukist, einkum þá vegna erlendra starfmanna sem koma
og fara. Mörgum fannst byggðin sín afskekkt og afskipt og stundum í auknum mæli við sameiningu
sveitarfélaga: „Við verðum að standa eins og vargur og standa vörð um það sem okkur ber.“ Það
væri áskorun að halda í verslun og aðra þjónustu, t.d. heilsugæslu. Það vantaði mannskap, húsnæði
og fjölbreyttari störf.
Fólk úr öllum byggðunum sem heimsóttar voru lögðu áherslu á að sjálfboðavinna heimafólks væri
gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagsleg verkefni og framkvæmd mikilvægra viðburða sem oft væru
árstíðabundnir. Án sjálfboðavinnu væru engir menningarviðburðir, skemmtanir né aðrar uppákomur.
Einn viðmælandi sagði: „Vinnuframlag okkar auðgar mannlífið.“ Sjálfboðavinna kvenfélaga ein-
kenndist t.d. af vinnu að „góðum málefnum sem við samþykkjum sjálfar og hagnaður fer í eitthvað
fyrir samfélagið.“ Svörin við spurningunni um hvers virði sjálfboðavinna væri fyrir viðkomandi
byggð voru mörg. Bent var á að verkefnin væru mikilvæg, þau glæddu menninguna og væru í raun
hjartslátturinn í samfélaginu: „Er kjötið utaná beinunum“; „Samfélagið væri fátækara, það skiptir
máli í dreifðum byggðum að standa saman“; „Er sálin í bæjarlífinu“; „Ekki bara það sem gert er