Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Qupperneq 43
Ragnheiður Hergeirsdóttir, Guðný Björk Eydal og Sólveig Þorvaldsdóttir
43 ..
Fyrsti fasi, forvarnir (e. mitigation), er aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr neikvæðum
áhrifum og afleiðingum atburða. Annar fasi er viðbúnaður (e. preparedness) og snýst um hvernig
undirbúa megi samfélagið til að lágmarka tjón, svo sem með gerð viðbragðsáætlana og fræðslu.
Þriðji og fjórði fasi koma eftir að atburður hefur átt sér stað og eru annars vegar neyðarviðbrögð
(e. response), það sem gert er strax í kjölfar áfalls eins og lífsbjargandi aðgerðir og fyrsta hjálp, og
hins vegar endurreisn (e. recovery) sem hefur þann tilgang að samfélagið nái aftur sínum fyrri styrk
og getur falist í fjölbreyttum aðgerðum til skemmri og lengri tíma, s.s. aðstoð við húsnæðismál og
stuðningi við þau sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín vegna atburða. Í raunverulegum aðstæðum er
ekki um línulegt ferli að ræða, viðbrögð geta verið í gangi á fleiri en einu stigi í einu og má sem dæmi
nefna að endurreisnarstarf er hluti af öllum stigum því grunnur að endurreisn byggir á því hvernig til
tekst á öðrum stigum (Gillespie & Danso, 2010; Sólveig Þorvaldsdóttir o.fl., 2008).
Fyrstu viðbrögð opinberra aðila í kjölfar hamfara eru mjög mikilvæg; það skiptir sköpum fyrir
framhaldið að þær aðgerðir sem gripið er til skapi öryggistilfinningu meðal íbúa og að þeir öðlist
traust gagnvart yfirvöldum. Erfitt hefur reynst að vinda ofan af vandræðum í miðjum aðgerðum og
því er mikilvægt að undirbúningur sé traustur og hægt sé að ganga fumlaust til verka strax í upphafi
(Tierney og Oliver-Smith, 2012).
Félagsþjónusta á tímum áfalla
Um áratuga skeið hefur byggst upp þekking á mikilvægi félagsþjónustu í kjölfar hamfara. Rann-
sóknir á hlutverki félagsþjónustu á tímum samfélagslegra áfalla sýna að undirbúningur og áætlanir
hafa mikið að segja um áhrif og afleiðingar áfalla á einstaklinga og samfélög. Þær sýna einnig fram
á að mikilvægt er að félagsþjónustan hafi unnið eigin viðbragðsáætlanir og undirbúið sig til að
bregðast við samfélagslegum áföllum (Alston o.fl., 2019; Bartoli o.fl., 2022, Cuadra, 2016; Elliott,
2010; Ragnheiður Hergeirsdóttir og Guðný Björk Eydal, 2021; Rapeli, 2017).
Fjölmargar rannsóknir, m.a. á sviði hamfarafélagsráðgjafar, hafa sýnt fram á að þeir einstaklingar
og hópar sem dags daglega standa höllum fæti í samfélaginu eru, eðli máls samkvæmt, tjónnæmari
en aðrir þegar samfélög verða fyrir áföllum. Þetta eru börn, innflytjendur og flóttafólk, fátækt og
efnaminna fólk og fatlað fólk og aldrað, og þá eru þau sem lent hafa í endurteknum áföllum á ævinni
oft viðkvæmari fyrir en annars væri. Félagsþjónusta sveitarfélaga býr yfir þekkingu á aðstæðum og
þörfum þessara hópa í samfélaginu og aðferðum til að styrkja og styðja þau sem mest þurfa á aðstoð