Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Síða 69
Eyrún María Rúnarsdóttir
69 ..
átt við að unglingar sem líður verr leiti eftir tengslum á netinu eða að fjöldi vina sem eingöngu eru
samskipti við á netinu bendi til samfélagsmiðlanotkunar sem hefur skaðleg áhrif á líðan. Greining
á tengslum líðanar og fjölda netvina eftir kyni var ekki viðfangsefni þessarar rannsóknar og bíður
það betri tíma.
Þegar áfram er horft til vina sem eingöngu eru samskipti við á netinu er það eina atriðið sem
tengdist líðan á ólíkan hátt eftir búsetusvæði. Unglingar á Vestur- og Norðurlandi nutu ávinnings af
vináttu á netinu sem sýndi sig í lægri tíðni umkvartana hjá þeim miðað við unglinga á höfuðborgar-
svæði þegar netvinir voru fleiri. Niðurstöðurnar eru forvitnilegar en lítið er til af efni þar sem slík
samskipti eru til skoðunar. Í rannsókn frá 2008 reyndust borgarbörn frekar nýta sér möguleika nets
til samskipta og nutu stuðnings vina á þann hátt frekar en ungmenni í strjálbýli (Dooris o.fl., 2008).
Ekki fannst munur hér á milli búsetusvæða á fjölda vina sem eingöngu voru samskipti við á neti.
Niðurstöðurnar benda samt sem áður til þess að unglingar úr þeim skólum sem rannsóknin náði til á
Vestur- og Norðurlandi hagnist á vinatengslum sem netið býður upp á. Með öðrum orðum, samskipti
á netinu eru jákvæð fyrir þennan hóp unglinga en tengjast ekki vanlíðan líkt og gildir að jafnaði fyrir
aðra þátttakendur í rannsókninni. Vera má að á þeim svæðum sé aðgengi að félögum og vinum í
raunheimi rýrara en annars staðar og því bæti unglingar þar sér fámennið upp með samskiptum við
vini í netheimi. Uppbyggileg samskipti vina og stuðningur þeirra tengist vellíðan unglinga (Sigrún
Aðalbjarnardóttir, 2019) og má færa fyrir því rök að netsamskipti við vini hafi einmitt þann ávinning
fyrir unglinga á Vestur- og Norðurlandi sem tóku þátt í rannsókninni. Mikilvægt er að rannsóknir
á samfélagsmiðlanotkun og samskiptum unglinga á netinu horfi ekki einungis til skaðlegra áhrifa
heldur taki tillit til þess hverrar tegundar samskiptin eru og að slík samskipti og tengsl geti verið
gjöful í ýmsum aðstæðum.
Einn af kostum þessarar rannsóknar var að byggt var á mælingum sem sannað hafa gildi sitt.
Svörun var góð og stærð og gerð úrtaks þannig að hægt var að skoða svör á mismunandi land-
svæðum. Ekki er þó hægt að alhæfa á alla unglinga út frá þessari rannsókn. Úrtakið var ekki tilvilj-
unarkennt og náði að auki eingöngu til nokkurra íslenskra byggðalaga en ekki annarra. Þetta ber að
hafa í huga við túlkun niðurstaðna. Þau gögn sem nýtt voru í rannsóknina byggðu á spurningalista
sem hannaður var með annars konar markmið í huga en hér voru sett fram. Spurningar um aðgengi
að íþrótta- og tómstundastarfi, náttúru, og menntun hefðu til dæmis gefið áhugaverða vídd. Líkt og
bent var á hér að ofan gefa þversniðsrannsóknir eins og þessi annars konar svör um orsakasamhengi
en ef um langtímagögn væri að ræða.
Lokaorð
Þessi rannsókn bendir til þess að ungu fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu líði verr en jafnöldrum
þeir ra sem búa í annars konar byggðalagi. Þeir þættir sem hér voru til skoðunar, kyn unglinganna,
aldur, efnahagur fjölskyldu og fjöldi vina hafði enginn áhrif á þann mun sem fannst. Niðurstöðurnar
gefa ótvírætt til kynna að ástæða sé til að taka áhrif búsetu og umhverfis á líðan ungs fólks inn í
reikninginn þegar fjallað er um líðan unglinga og þá staðreynd að hún virðist fara hrakandi. Frekari
rannsóknir á því hvaða þættir í smærri og stærri byggðalagi til dæmis tengjast líðan eru mikilvægar.
Önnur lykilniðurstaða rannsóknarinnar er að tengsl og samskipti við vini á netinu geta verið
gagnleg og bætt líðan unglinga við tilteknar aðstæður en hér voru það ungmenni í byggðalögum á
Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi sem leið betur eftir því sem þau áttu fleiri netvini. Almennt
hafa samskipti á samfélagmiðlum á sér neikvæðan stimpil og foreldrar eindregnir hvattir til að leita
leiða til að stilla netnotkun barna sinna í hóf. Þó vissulega eigi hófið við í þessu samhengi er einnig
mikilvægt að horfa til þess í hverju notkunin felst og hvað í veru unglinga á netinu skapar þeim tæki-
færi og aukna velferð og hvað þar er þeim skaðlegt. Rannsóknir á því hvernig börn og unglingar í
fámennari byggðalögum bæta sér upp tengsl við vini og félaga ef fáir jafnaldrar búa nærri eru nánast
engar. Samskipti jafningja eru börnum og unglingum mikilvæg til vaxtar og þroska og er því brýnt
að auka rannsóknir á þessu sviði.