Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Qupperneq 119
Helgi Skúli Kjartansson
119 ..
Eskfirðingar gáfust ekki upp á samvinnufélagsskapnum heldur endurreistu hann með nýju útgerðar-
félagi og ekki minna en tveimur kaupfélögum.
Útgerðarfélagið hét Kakali, stofnað 1933. Það fékk nú ríkisábyrgð á lánum sem dugðu til að
semja um nýsmíði á fjórum bátum. Þrír voru einkum ætlaðir til þorskveiða, nokkru stærri þó en
eldri bátar í plássinu, gátu því sótt lengra og notað fjölbreyttari veiðarfæri. Sá fjórði var miklu stærri,
en dýrari í rekstri, reyndist ekki henta til bolfiskveiða og var aðeins gerður út á stuttri síldarvertíð,
auk þess sem hann nýttist til landhelgisgæslu (Friðrik Steinsson, 1935). Aflabrögð voru góð fyrsta
starfsár Kakala en afleit eftir það (Tafla 2) enda gafst hann upp eftir annað árið. Félagsmenn hafa
tapað stofnfé sínu, en ekki skal fullyrt hve mikið af tapi félagsins lenti á þeim sem ábyrgðarmönnum
eða á ríki, sýslu og hrepp vegna ábyrgða og veða. Bátar Kakala voru þó ekki seldir úr plássinu
heldur voru þeir uppistaðan í þilskipaflota Eskfirðinga næstu árin, gerðir út af mismunandi hópum
einstaklinga – vafalaust með Landsbankann að bakhjarli (Einar Bragi, 1983, bls. 152–153; sbr. töflu
3 og viðauka).
Kaupfélögin tvö urðu langlífari, fyrstu verslanir á Eskifirði í langan tíma sem tókst nokkurn
veginn að koma undir sig fótunum. Af þeim var hið yngra, Kaupfélagið Björk, beinn arftaki gamla
kaupfélagsins, aðildarfélag SÍS og treysti mjög á viðskipti bænda. Það yfirtók eina af smáverslunum
staðarins og gerði eiganda hennar, Markús E. Jensen, að kaupfélagsstjóra (Einar Bragi 1973, bls.
148–153). Þá var bróðir Markúsar, fyrrnefndur Arnþór Jensen, þegar orðinn kaupfélagsstjóri hins
félagsins, Pöntunarfélags Eskfirðinga, og varð það smám saman hans aðalstarf þótt hann væri með
fram stjórnandi Hugins. Með því að kalla sig pöntunarfélag sór félagið sig í ætt verslunarsamtaka
sem víða voru stofnuð í þéttbýli, tengd verkalýðsfélögum og vinstrihreyfingu, t.d. PAN, Pöntunar
félag alþýðu, Neskaupstað, sem mun hafa verið hin beina fyrirmynd Eskfirðinga. Flest slík félög
uppfylltu ekki skilyrði samvinnulaga um að í kaupfélagi bæri hver félagsmaður ótakmarkaða ábyrgð
á skuldbindingum félagsins. Þau voru því ekki skráð sem samvinnufélög og ekki tæk í SÍS fyrr en
samvinnulögunum var breytt 1938. Pöntunarfélag Eskfirðinga var hins vegar frá upphafi formlegt
samvinnufélag með fulla samábyrgð. Eðlilega var það samt bændafélagið Björk sem fékk inngöngu
í SÍS, Pöntunarfélagið ekki fyrr en löngu seinna þegar það hafði yfirtekið Björk (Einar Bragi 1973,
bls. 24–42).
Góð ráð dýr
Eskfirðingar höfðu sem sagt ýmis spjót úti til að glæða atvinnulífið í plássinu. Og það væntanlega
fleiri en hér hafa fundist heimildir um. Einhvers konar tilraun hefur það t.d. verið 1934 að hefja á
ný útgerð árabáta og láta 30 manns skiptast á að róa á þremur bátum. Áhafnir trillubátanna eru líka
fjöl mennari þetta ár en ella, væntanlega vegna skiptivinnu (Tafla 3).
Öll þessi viðleitni hrökk þó skammt. Eskifjörður sökk æ dýpra í atvinnuleysi og fátækt. Þótt ríkið
veitti illa stöddum sveitarfélögum vissa aðstoð, greiddi t.d. hluta af kostnaði þeirra við fátækra-
framfærslu og atvinnubótavinnu, þá dugði það ekki til að halda Eskifjarðarhreppi á floti. Í árs
byrjun 1933 höfðu tveir oddvitar hreppsins, þáverandi og fyrrverandi, tekið saman svarta skýrslu
um ástandið (Ólafur H. Sveinsson og Arnfinnur Jónsson, 1933; Einar Bragi 1983, bls. 148–153). Án
frekari aðstoðar „fer fjöldi hreppsbúa á vonarvöl og hreppsfélagið verður gjaldþrota á þessu ári“ eru
niðurlagsorð þeirra. Síðar á árinu var auglýst nauðungaruppboð á fasteign í eigu hreppsins og síðan
lýst eftir kröfum í bú hans þar eð hann hefði leitað aðstoðar ríkisins samkvæmt sérstökum lögum.
Hvernig enn hafði hallað undan fæti má sjá 1936 þegar Eskfirðingar sendu þriggja manna nefnd
til Reykjavíkur að fylgja eftir málstað sínum við þing og stjórn (Sendinefnd frá Eskifirði er stödd
…, 1936). Þá hafði hreppurinn „svo að segja verið rekinn af ríkinu“ síðan 1933, enda ómögulegt að
innheimta útsvör. Sendimenn töldu örvænt að bátaútvegur dygði til viðreisnar þorpinu (Tafla 2 sýnir
ástand hans) heldur yrði að efna til „stórútgerðar eða stóriðnaðar“. En hvorugt gerðist. Kreppan hélt
áfram.