Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Síða 121
Helgi Skúli Kjartansson
121 ..
Vissulega með háðsmerkjum, því að á Eskifirði hófst engin bylting í marxískum skilningi né komst
þar á raunveruleg ráðstjórn, en engu að síður er tíu manna „ráðið“ á Eskifirði nánasta hliðstæða Ís
landssögunnar við „sovétin“ sem myndað höfðu grasrót rússnesku byltingarinnar.
Stjórnvöld tóku ekki mark á þessum ráðstöfunum heldur létu endurtaka hreppsnefndar kosninguna
með lögformlegum hætti. Af þremur framboðum fékk „samfylkingarlistinn“ mest fylgi, en ekki
meirihluta og vék Arnfinnur úr oddvitasessi. Sú hreppsnefnd sagði líka af sér eftir eitt ár, en nú þurfti
ekki að kjósa því aðeins einn listi kom fram. Þar átti Árvakur meirihluta, enn sem fyrr með Arnfinn
í fararbroddi (Einar Bragi 1983, bls. 136).
Það voru þannig félagshyggjuöflin, ekki síst verkalýðshreyfingin, sem í samspili við útibú Lands
bankans lögðu línur í atvinnumálum Eskfirðinga á því tímabili sem hér hefur verið lýst.
Niðurstöður
„Hver einn bær á sína sögu.“ Það má segja um sjávarþorp ekki síður en sveitabæi, og vissulega var
ýmislegt að gerast í atvinnumálum Eskfirðinga á þeim tíma sem hér hefur verið til skoðunar. En er
eitthvað af því sérstaklega merkilegt? Það verður höfundur eiginlega að leggja í dóm lesenda: hvað
þeim kann að koma á óvart, hvað fyllir upp í mynd þeirra af Íslandi millistríðsáranna, hvað kallast á
við byggðavanda útgerðarstaða á 21. öld.
Af því sem ekki á sér hliðstæður annars staðar (ekki svo höfundur viti a.m.k.) má ekki síst benda
á Hugin, samvinnufélag um saltfiskverkun, að uppistöðu félag kvenna um það dæmigerða kvenna
starf að þurrka fisk á reitum. Félag sem virðist hafa náð verulegu flugi, einmitt þegar mest þurfti á
að halda.
Saga Andrafélagsins er líka nokkuð sérstök. Af örfáum tilraunum til að leysa atvinnuvanda
sjávar þorps með togaraútgerð var hún einhver sú fyrsta. Það hafði ekki heldur verið algengt að
sveitarfélag fjárfesti í atvinnurekstri sem stór minnihlutaeigandi. Og svo áformið um að verkafólkið
verði smám saman hluthafar með því að fá laun sín að nokkru í hlutabréfum. Þótt það kæmist aldrei
til framkvæmda er það ákveðið skref í hugmyndasögu atvinnulýðræðis á Íslandi sem vert er að rifja
upp þótt á sínum tíma virðist það ekki hafa vakið mikla athygli.
Ef samvinnuútgerðin á Eskifirði er merkileg, þá er það ekki af því að hún skeri sig svo mjög
úr heldur var hún þáttur í hreyfingu sem um munaði fyrir þróun sjávarútvegs og samvinnustarfs á
landinu öllu. Eskfirðingar voru ekki heldur einir um hinar skelfilega misheppnuðu tilraunir Aust
firðinga til síldarsöltunar og ísfiskútflutnings 1931, en þær eru minnisverðir hlekkir í atburðarás
heimskreppunnar á Íslandi.
Það brot úr sögu Eskifjarðar sem hér hefur verið rakið má skoða frá ýmsum sjónarhólum. Einn
er sá hvernig ábyrgð og ákvarðanir skiptast á milli miðstjórnar og heimabyggðar. Það á ekki aðeins
við um hreppsnefndina gagnvart Alþingi og ríkisstjórn (með sýslumann og sýslunefnd sem millistig)
heldur um Landsbankaútibúið gagnvart aðalbankanum, sömuleiðis verkalýðsfélögin og samvinnu-
félögin gagnvart sínum heildarsamtökum, ASÍ og SÍS. Og þá eiginlega heildarsamtökunum ásamt
tilheyrandi stjórnmálahreyfingum, Alþýðuflokki og Framsóknarflokki. Sérstaklega er athyglisvert
hvernig verkalýðsfélög og verkalýðsflokkar á Eskifirði móta sína sérstöku stefnu í málum byggðar-
lagsins, stefnu sem um sumt er merkilega róttæk og hampar beinu lýðræði fremur en stofnanalýð
ræði. Hér birtast athyglisverðir drættir í sögu vinstri hreyfingarinnar á Íslandi.
Þá sýnir dæmi Eskifjarðar býsna skýrt hve mikla ábyrgð bankarnir gátu tekið á málefnum
byggðar laga. Um þá sögu er hér litlu bætt við fyrri frásagnir og ekki reynt að meta hve sérstakur
Eskifjörður var að þessu leyti. En gaman væri að vita meira um hlut bankakerfisins í atvinnu- og
byggðasögu millistríðsáranna, ár fyrir ár, stað fyrir stað.